139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[22:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við höldum áfram umræðunni um þingsályktunartillögu um skipun stjórnlagaráðs sem kemur í kjölfar ákvörðunar Hæstaréttar um að ógilda stjórnlagaþingskosninguna.

Orðræðan hér í dag hefur verið fróðleg og hefur verið athyglisvert að fylgjast með henni en hún hefur líka verið hálfundarleg á köflum. Í þessu mikilvæga máli hefur fólk á stundum sýnt ákveðinn vilja og oft mjög mikinn til mikilla útúrsnúninga. Það væri hægt að fara í ýmis atriði, ég ætla ekki að gera það en mig undrar að þetta skuli vera forgangsmál ríkisstjórnarinnar núna. Það er dregið fram í fréttum í dag að ekki eru margir dagar til stefnu fyrir ríkisstjórnina að koma fram með sín mál, sérstaklega þau sem við erum að bíða spennt eftir varðandi uppbyggingu atvinnumála, hvernig við ætlum að koma hagvextinum upp en ekki niður, eins og ríkisstjórnin er að gera, en við ræðum það hvernig við ætlum að breyta stjórnarskránni. Ekki er óeðlilegt að það brenni á fólki að breyta þurfi stjórnarskránni og ég virði það.

Það var verið að tala um íhaldssemi áðan. Ég verð að viðurkenna það og segi það hreint út að ég er íhaldssöm þegar kemur að ýmsum málum, t.d. þegar kemur að því að breyta stjórnarskránni. Stjórnarskráin er ákveðið grundvallarplagg. Ég sagði það margoft hérna þegar við vorum og stóðum í málþófi, ég segi það opinskátt, við sjálfstæðismenn stóðum í málþófi, því að við ætluðum að stoppa mjög vanhugsaðar breytingartillögur, gerðar í mikilli ósátt og sundurlyndi á vordögum núverandi ríkisstjórnar, sem var þá minnihlutastjórn með fulltingi Framsóknarflokksins. Þá fékk hver flokkur sitt, Framsókn fékk eitt atriðið, Vinstri grænir annað og Samfylkingin þriðja. Þannig var möndlað að mínu mati með stjórnarskrána og lítil virðing borin gagnvart því grundvallarplaggi sem við sem betur fer berum virðingu fyrir. Það ánægjulega við þann rauða þráð sem hægt er að greina í ræðum allra þingmanna í dag er að þeir bera mikla og vilja bera mikla virðingu fyrir stjórnarskránni. Ég ætla því að reyna að leyfa mér að hanga í því jákvæða sem komið hefur út úr ýmsum ræðum í dag.

Við sjálfstæðismenn, og ég þar á meðal, erum einfaldlega á móti stjórnlagaþingi eins og það var kynnt hér á síðasta ári. Við erum stödd á stjórnlagaþingi og stjórnlagaþingið er Alþingi Íslendinga. Ein af starfsskyldum okkar þingmanna er að breyta stjórnarskránni, svo einfalt er það. En þá fer orðræðan m.a. í það að af því að við erum á móti stjórnlagaþinginu og stjórnlagaráðinu eins og það er kynnt hér, þá séum við einfaldlega á móti því að breyta stjórnarskránni. Það erum við ekki. En við erum á móti þeirri aðferð sem er verið að kynna fyrir margra hluta sakir.

Með því plaggi sem við erum að ræða í dag, og ég tek undir það sem ýmsir félagar mínir í Sjálfstæðisflokknum hafa sagt, er að mínu mati verið að sniðganga niðurstöðu og ákvörðun Hæstaréttar í því máli sem tengdist kosningu til stjórnlagaþings og sú kosning var síðan ógilt. Ég tel að hægt sé að færa fullgild rök fyrir því að verið sé að sniðganga niðurstöðu Hæstaréttar. Ég tel líka að menn hafi í minnihlutaáliti okkar sjálfstæðismanna og ræðum hv. þingmanna, t.d. Sigurðar Kára Kristjánssonar og Birgis Ármannssonar, fært mjög gild rök fyrir því að verið er að fara á svig með ákveðnum hætti við þrískiptingu ríkisvaldsins, þ.e. löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdarvald, og verið að sneiða að Hæstarétti með þeirri leið sem við erum að ræða. Ég er einfaldlega á móti henni, ég er mjög á móti þessari leið. Það er hægt að tipla á tánum í kringum þetta og segja að finna þurfi einhverja lausn í málinu. Það átti einfaldlega að hætta við málið eins og það var lagt upp og fela þinginu það hlutverk sem það hefur enn þá stjórnarskrárbundinn rétt til að gera og á að gera, þ.e. að fara í það að breyta stjórnarskránni. Ég kem að því síðar.

Ég vil fyrst fara yfir það og segja svona aukreitis að mér þótti miður að sjá og upplifa þá atlögu sem var gerð að Hæstarétti Íslands í kjölfar úrskurðar hans um að ógilda kosninguna til stjórnlagaþings. Ákveðnir þingmenn, spunameistarar stjórnarflokkanna, ekki síst Samfylkingar, fóru af stað og reyndu mjög ákveðið að rýra virðingu Hæstaréttar og gera lítið úr þeim einstaklingum sem skipuðu dóminn. Mér fannst lítill sómi að hvernig að því var staðið. Krafa mín sem einstaklings í þessu samfélagi er að Hæstiréttur fari eftir lögum. Þegar hann kemst að niðurstöðu förum við eftir þeirri niðurstöðu. Þó að við kunnum að vera ósátt við dóm gerum við ekki lítið úr Hæstarétti heldur förum eftir því sem hann segir. Þá kem ég að því: Erum við að fara að því sem hann segir? Nei, það erum við ekki að gera. Ég vil benda á það sem ýmsir hafa gert og við höfum m.a. í minnihlutaáliti okkar vísað í prófessora við Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands. Róbert Spanó segir að stjórnlagaráðið hvíli ekki á traustum forsendum og Ragnhildur Helgadóttir, prófessor í lögfræði við Háskólann í Reykjavík, segir að þetta sé löglegt en óheppilegt.

Það á ekkert að vera óheppilegt í tengslum við að breyta stjórnarskránni, það má ekki vera. Það verður að vera hafið yfir allan vafa.

Það er hægt að nefna margumrædda grein míns gamla prófessors, Sigurðar Líndals, þar sem hann segir m.a., með leyfi forseta:

„Með þessu er Alþingi í reynd að fella ákvörðun Hæstaréttar úr gildi og ganga inn á svið dómsvaldsins. Jafnframt virðir Alþingi ekki þrískiptingu ríkisvaldsins og brýtur þannig gegn stjórnarskránni, eða að minnsta kosti sniðgengur hana. Um leið ómerkir þingið eigin ákvörðun um að fela Hæstarétti endanlegt ákvörðunarvald.“

Síðan kemur að því sem mér þótti gott. Mér fannst það reyndar ekki byrja vel þegar hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, í umræðu um niðurstöðu Hæstaréttar byrjaði á að hnýta í Hæstarétt, en svo sá hann greinilega að sér og áttaði sig á þeirri ábyrgð sem fylgir því að vera innanríkisráðherra og þar með yfirmaður dómsmála þegar kemur að framkvæmdarvaldinu. Þess vegna var það til sóma hvernig hann notaði síðan blogg sitt á heimasíðu til að lýsa yfir andstöðu við þá tillögu sem við erum að ræða í þinginu.

Þar segir hann m.a., með leyfi forseta:

„Það þýðir á mannamáli að engar fjallabaksleiðir“ — hann er einfaldlega að segja að við séum að sniðganga Hæstarétt — „megi fara til að komast fram hjá niðurstöðu Hæstaréttar. Að mínu mati er skipun stjórnlagaráðs með sömu einstaklingum og kosnir voru til stjórnlagaþings tilraun til einmitt þessa. Verði þetta niðurstaða Alþingis þá næst hún fram án míns stuðnings.“ — Þetta er mjög skýrt, „án míns stuðnings“ segir hæstv. innanríkisráðherra. — „Í dag lýsti ég yfir andstöðu við þetta ráðslag og að ég myndi ekki greiða þessari tillögu atkvæði mitt. Enda er það svo að orð skulu standa og grundvallarreglur skal virða!“

Auðvitað er hæstv. ráðherra ekkert að segja annað en að þeir sem leggja fram þessa tillögu með fulltingi stjórnarflokkanna, ekki síst forsætisráðherra, eru að ganga á snið við grundvallarreglur okkar samfélagskipulags.

Ég sæi það gerast í öðrum lýðræðislöndum að lagt sé fram frumvarp eða þingsályktunartillaga sem tengist breytingu á stjórnarskránni sem er í andstöðu við fagráðherra viðkomandi málaflokks, að verið sé að leggja fram þingsályktunartillögu sem er gegn viðkomandi fagráðherra. Ég furða mig mjög á þessu, enda þarf maður að hafa sig allan við að fylgjast með því hvaða stjórnarliðar eru hvar og í hvaða málum. Það er önnur saga þessa dagana.

Ég ætla að fara aðeins yfir í söguna, af því að mér finnst hún skipta gríðarlega miklu máli. Túlkun og afbökun sögunnar hefur einmitt að mínu mati fært okkur þangað sem við erum í dag, við erum komin í ógöngur varðandi breytingar á stjórnarskránni. Hér hefur verið talað um og reynt að benda á að síðan 1991, á 18 ára valdatíma Sjálfstæðisflokksins, var stjórnarskránni breytt þrisvar. Árið 1991 var m.a. skipulaginu á hinu háa Alþingi breytt, stór og mikill kafli. Mannréttindakaflinn, 15 greinar, voru settar inn og öðrum breytt árið 1995. En reynt er að gera lítið úr því meðan menn verða að átta sig á að það að breyta mannréttindakafla stjórnarskrár er gríðarlega stórt og umfangsmikið verkefni, enda tók það mikið á. En það var vönduð vinna og sérstaklega var gætt að því að allir flokkar og hagsmunasamtök hefðu greiðan aðgang og aðkomu að þeirri breytingu. Kjördæmaskipunin 1999, það er oft sagt að þingmenn geti ekki breytt stjórnarskránni af því að þetta snerti tillögu sem varðar m.a. fækkun þingmanna á þingi. Hvað var gert árið 1999? Þá var kjördæmaskipuninni breytt og það verulega. Það kostaði pólitísk átök en engu að síður náðist á endanum sátt um málið af því að menn gáfu sér tíma, menn ræddu málin, settust við borð og fóru þvert yfir alla flokka og líka málaflokka hvað þá breytingu varðaði.

Síðan kemur að því sem sérstaklega samfylkingarfólkið segir — það vekur náttúrlega eftirtekt að þegar farið er yfir ræðulistann hefur enginn þingmaður Vinstri grænna, fyrir utan framsögumann tillögunnar, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, farið í ræðustól út af þessu máli. Það sýnir að mínu mati að þetta er ekki hjartans mál Vinstri grænna, heldur er þetta fyrst og fremst hjartans mál Samfylkingar og þá fyrst og fremst forsætisráðherra. Það vekur að sjálfsögðu athygli að Vinstri græn tjá sig ekki mikið í þessu máli.

Ég var þar komin í sögunni að menn benda á og segja: Já, sjáið þið bara, þingið hefur einhvern tíma breytt stjórnarskránni, reyndar ekki mjög mikilvægum köflum. Ég er algjörlega ósammála því. Það er búið að breyta meira en 40 greinum af 79 í stjórnarskránni. Þá benda menn á: Þið sjáið það að eftir synjun forsetans á fjölmiðlalögunum gat þingið ekki komið sér saman um neinar breytingar. Af hverju var það? Menn hafa verið að draga fram auðlindaákvæðið. Ég kem að því á eftir. Það hefur komið mjög skýrt fram hjá okkur sjálfstæðismönnum — það er alltaf verið að brigsla okkur um að vilja ekki breyta eða setja auðlindaákvæði inn í stjórnarskrána, sem er rangt, það hefur verið reynt í sáttanefnd í sjávarútvegi — að við viljum setja þetta inn í stjórnarskrá. Það kom líka mjög skýrt fram af hálfu formanns okkar og formanns Framsóknarflokksins, Jóns Sigurðssonar, á upphafsvikum ársins 2007 að við værum tilbúin í breytingar og komum með breytingartillögu á stjórnarskránni til að setja inn auðlindaákvæði. Auðvitað eru það vísbendingar um að það er mjög auðvelt að ná sátt í því máli ef menn reyna að rétta fram einhverja sáttarhönd.

Þegar menn voru í stjórnarskrárnefndinni á sínum tíma árið 2005 var það bara einn flokkur sem sló skjaldborg um eitt ákvæði. Það er reyndar eina skjaldborgin sem Samfylkingin getur kannast við og það er skjaldborgin um 26. gr. um forsetann og synjunarvald hans, eina skjaldborgin sem Samfylkingin hefur nokkurn tíma slegið upp. Það mátti ekki hrófla við ákvæðunum um forsetann. Mín gagnrýni snertir á engan hátt persónu þess forseta sem nú er. Ég var í prinsippinu á móti þessu þá og ég var í prinsippinu á móti því núna, en hann var samkvæmur sjálfum sér miðað við það sem hann sagði á árinu 2004, bæði núna og í fyrra þegar hann kom í veg fyrir þann hraksmánarlega samning sem var kallaður Icesave 2 og hefði lagt miklar skuldbindingar á þjóðina.

Á árinu 2005 snerist vinnan í stjórnarskrárnefndinni um það að reyna að telja Samfylkingunni trú um að rétt væri að fara í breytingar á greinunum varðandi forsetann. Samfylkingin vildi ekki heyra á það minnst og þar við sat og þess vegna ekki hægt að breyta neinu. Ég vil meina að þeir tímar og tímar eftir synjunina á fjölmiðlalögunum hafi verið undantekningin en ekki meginreglan. Þetta var undantekningin sem sannaði regluna að þingið getur víst breytt stjórnarskránni og gert það með sóma.

Hvað hefur gerst síðan Samfylkingin sagði þvert nei við öllum breytingum á stjórnarskránni? Núna er Samfylkingin tilbúin til að ræða breytingar á greinunum er tengjast forsetavaldinu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ítrekað sagt að við viljum breyta og setja inn auðlindaákvæði. Þetta eru þau tvö atriði sem voru hvað veigamest og fyrirferðarmest varðandi umræðuna alla um breytingu á stjórnarskránni. Af hverju þá ekki að nota tækifærið og setjast niður og ná þessari breiðu sátt sem margir hv. þingmenn, bæði innan míns flokks og sem betur fer líka meðal framsóknarmanna, og fleiri, hafa verið að kalla eftir? Það hafa nefnilega tvö ár farið núna að vissu leyti í súginn út af þvergirðingshætti innan ríkisstjórnar, ekki þó innan allra stjórnarliða. En meðal forustumanna, ekki síst Samfylkingar, hafa menn ekki getað farið í það að breyta stjórnarskránni.

Á vordögum þegar við sjálfstæðismenn fórum í málþóf, ég ítreka það aftur að við fórum í málþóf af því að við vildum stoppa þessa dellu, vanhugsuðu dellu sem menn ætluðu að fara í í einhverju reiðikasti á upphafsdögum núverandi ríkisstjórnar. Hvað buðum við sjálfstæðismenn þá? Við buðum eina einfalda breytingu sem hefði verið ansi gott að samþykkja ef menn hefðu samþykkt hana þá. En menn gátu ekki hugsað þá hugsun til enda að samþykkja tillögu frá sjálfstæðismönnum. Tillaga okkar sjálfstæðismanna var: Gott og vel, til að sýna vilja okkar í að breyta stjórnarskránni — og það hefði verið auðveldara en það er í dag — var að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar þannig að auðveldara væri að breyta stjórnarskránni og breytingartillögurnar færu beint til þjóðarinnar frá þinginu en að ekki þyrftu alltaf þingkosningar til. Á þetta gat Samfylkingin ekki fallist, Vinstri grænir og Framsóknarflokkurinn sem þá studdi minnihlutastjórnina. Menn hefðu betur gert það.

Með þessu er ég að draga fram að sagan sýnir það nefnilega að þingið er fullfært um að breyta stjórnarskránni. Samfylkingin stoppaði breytingarnar og umræðurnar innan stjórnarskrárnefndarinnar sem Jón Kristjánsson, þáverandi þingmaður Framsóknarflokksins og ráðherra, leiddi, maður sem allir treystu og vissu að gat leitt málið til enda. Hann kom þessu ekki í gegn, ekki frekar en aðrir meðan menn sögðu stopp við að breyta greinunum er tengdust forsetanum.

Núna er það viðhorf breytt. Þess vegna skil ég ekki af hverju menn láta ekki á það reyna að nýta þá gríðarlega miklu vinnu sem m.a. stjórnlaganefndin hefur lagt í varðandi fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskránni. Af hverju nýtum við ekki þá vinnu sem hún hefur lagt fram? Af hverju nýtum við ekki vinnu frá þjóðfundinum sem var einstaklega vel heppnaður, þúsund manna fundur, sem einmitt endurspeglaði breiddina sem við vorum að sækjast eftir, og felum þinginu að gera þetta sem það hefur alla vega enn þá stjórnarskrárbundinn rétt til að gera og er hluti af þingskyldum okkar allra og förum þá leið sem að mínu mati mun vera farsælust og jafnvel skilvirkust til að breyta stjórnarskránni?

Ekki er hlustað á það og ekki er hlustað á orð og ráðleggingar prófessora. Mér fannst miður að heyra það, en ég skil það svo sem ef eitthvað hefur komið upp á, að leyfa ekki prófessorum í stjórnskipunarrétti að koma til fundar við allsherjarnefndarmenn. Mér finnst það miður ef menn hlusta ekki á ráð þessara vísu manna og í rauninni einsdæmi þegar kemur að breytingum á stjórnarskránni að menn skuli ekki hlusta á prófessora í stjórnskipunarrétti.

Ég er fyllilega sannfærð um það að hægt er að ná sátt ef menn leggja sig fram um að breyta stjórnarskránni. Mér finnst það margar vísbendingar hafa verið gefnar í ræðum sem hafa verið fluttar hér í dag. Það þarf hins vegar að hafa forustu um að gera það. Sú forusta getur komið annars vegar af hálfu forseta þingsins eða af hálfu forustumanna í ríkisstjórninni til að leiða okkur öll saman að sameiginlegu borði, til að við getum búið til stjórnarskrá sem við getum verið stolt af og sett fyrir þjóðina sem við fylgjum eftir og getum lifað með um ókomin ár.