139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[23:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég gat um í ræðu minni er ég íhaldssöm á margt og ég er íhaldssöm á breytingar á stjórnarskránni. En það er ekkert óeðlilegt við það að kallað sé eftir ákveðnum breytingum á stjórnarskránni, ég geri mér grein fyrir því, en við höfum einfaldlega skiptar skoðanir á því. Þegar við lesum stefnuskrá þeirra sem buðu sig fram til stjórnlagaþingsins sjáum við að mjög skiptar skoðanir eru um það hvar áherslurnar eigi að vera.

Ég er reiðubúin, eins og ég hef áður sagt, til að fara yfir breytingargreinina, ég held að það sé nauðsynlegt til lengri tíma litið að gera það. Við sjálfstæðismenn höfum rætt um auðlindaákvæðið. Við sjálfstæðismenn höfum líka rætt um ákvæði er tengist synjunarvaldi forsetans og viljum frekar koma á ákveðinni tengingu við beinar þjóðaratkvæðagreiðslur í tilteknum málum með ákveðnum rétti þjóðarinnar. Þetta eru allt atriði sem við höfum verið að benda á og ég heyri ekki betur en einstaklingar úr öðrum flokkum hafi verið að tala nákvæmlega um það sama. Það er nefnilega ekki langt á milli manna í þessu máli.

Það er samt eins og það sé alltaf þannig að menn þurfi að búa til ágreining úr öllu. Ég held einmitt að í þessu máli sjái ríkisstjórnin, með Samfylkinguna í broddi fylkingar, sér hag í því að ala á illindum til þess hugsanlega að beina athyglinni frá öðrum erfiðum málum. Dönsk stjórnarskrá eða ekki, það þarf að heimfæra hana betur upp á íslenskan veruleika en hún hefur enst okkur vel. Hún hefur nýst okkur vel, þessi stjórnarskrá, og hún er ekki ástæða þess að hér fór sem fór.