139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[23:05]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni, stjórnarskráin verður að vera þannig að hún geti tekið á móti nýjum straumum o.s.frv. En hún má ekki vera tískuplagg. Þetta er sígilt plagg sem verður, að mínu mati, að standast tímans tönn. Þess vegna verðum við að vanda okkur við það verk að breyta henni.

Hvað ef þessi tillaga nær ekki fram að ganga? Það getur vel verið að hún geri það ekki. Þá hvílir mikil ábyrgð á okkur sem höfum talað um að við viljum breytingar að sýna fram á að hægt sé að fara aðra leið. Þær leiðir höfum við sjálfstæðismenn meðal annars dregið fram. Það er til svo mikið af gögnum, eins og við höfum bent á, ekki bara frá þjóðfundinum og ekki bara frá stjórnlaganefndinni heldur líka frá stjórnarskrárnefndinni sem Jón Kristjánsson leiddi á sínum tíma. Það er gríðarlega mikið magn til af efni og það er gríðarlegur vilji til að breyta. Þá verða menn einfaldlega að grípa þann bolta ef þetta fellur, og við skulum vona að þetta falli, og fara frekar í þann farveg sem mér finnst heppilegri og ýmsum öðrum, sem er þessi hefðbundni stjórnarskrárbundni farvegur miðað við daginn í dag, þ.e. að allir flokkar setjist niður og noti þann vilja og kraft og þá þekkingu og þær upplýsingar sem til staðar eru til að breyta stjórnarskránni.

Við þurfum þá að hafa hraðar hendur því eins og hv. þingmaður veit viljum við bæði kosningar sem allra fyrst. Nýtum þá tímann fram að næstu þingkosningum, sem verða vonandi fyrr en síðar. Þá getum við kosið um nýja stjórnarskrá og þá verðum við kannski komin með nýja stjórnarskrá innan árs.