139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[23:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir lýsir hér veruleika sem rímar mjög illa við upplifun mína af undanförnum mánuðum og missirum í hinu pólitíska litrófi. Hún lýsir veruleika þar sem ekki er hlustað á tillögur Sjálfstæðisflokksins í stjórnarskrármálinu, hún lýsir tveggja ára átökum innan ríkisstjórnarinnar.

Ég man ekki betur en að náðst hafi ágætissamkomulag um það hér í þinginu síðasta vor hvernig til væri tjaldað í þessu máli. Þannig var að að tillögu Sjálfstæðisflokksins var skipuð sérstök stjórnlaganefnd og að tillögu Sjálfstæðisflokksins var boðað til svokallaðs þjóðfundar. Ég man ekki betur en að þegar kom að sjálfu stjórnlagaþinginu hafi Sjálfstæðisflokkurinn setið hjá, allir nema varaþingmaður hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, Óli Björn Kárason, sem ég held að hafi verið á móti, ef ég man þetta rétt. Það er því af og frá að vinnulag í ríkisstjórninni sé í einhverri líkingu við það sem hv. þingmaður er að lýsa hér.

Ég vil líka mótmæla því sem fram kom í máli hv. þingmanns varðandi vinnulagið í allsherjarnefnd. Þar voru kallaðir til þeir gestir sem óskað var eftir innan þess tímaramma sem tilkynnt var í upphafi að yrði utan um þá vinnu nefndarinnar. Tíminn var naumur, það vissu menn líka. Það kemur líka til af því að menn höfðu á vettvangi samráðsnefndar, sem var skipuð sérstaklega, getað kallað til gesti og sérfræðinga. Þar komu allir flokkar að og fengu að hafa fulltrúa sinn í þeirri vinnu. Það er því einfaldlega ekki rétt, sem hv. þingmaður heldur fram, að ekki hafi verið gætt að samráði við stjórnarandstöðuna. Það var þvert á móti eins mikið og mögulegt var í þessu máli. Það er einfaldlega ekki þannig að þegar menn hafi samráð verði þeir í einu og öllu að fara að tillögum Sjálfstæðisflokksins, allir hljóta að gefa eftir.