139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[23:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er nú fegin því að stundum er hlustað á okkur sjálfstæðismenn. Ef menn hafa ætlað að fara í kosningar út af stjórnlagaþinginu hefði það ekki átt að gerast samhliða þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave. Til þess er Icesave-málið allt of mikilvægt og líka stjórnlagaþingið, hvort tveggja allt of mikilvæg mál til að verið sé að blanda þeim saman á einum og sama deginum.

Hins vegar er það þannig, og það hefur komið fram hjá okkur sjálfstæðismönnum hér í dag, að ef menn ætla að fylgja því eftir að hafa stjórnlagaþing, og fylgja eftir ákvörðun Hæstaréttar, hefði verið best í þessu máli — og með því erum við ekki að segja að við séum fylgjandi því — að byrja frá grunni og hafa nýjar kosningar, auglýsa nýjan framboðsfrest og fara alla þá leið. Menn treystu sér ekki í það, meðal annars vegna kostnaðar, það eru sjónarmið, og vegna ýmissa annarra þátta.

Ég segi aftur: Þingið, það er lag núna af því að það hefur svo margt breyst, það er lag til að láta forustu flokkanna ná saman í þessu máli sem skiptir okkur öll miklu. Við viljum sýna fram á að þingið geti gert þetta og það getur gert þetta því að það er styttra á milli manna en menn halda.