139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[23:51]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að það er mjög æskilegt þegar menn fara í þá vegferð að breyta stjórnarskránni að um það sé sem ríkust og best sátt. Það gefur augaleið að það er mjög æskilegt. Það er ekki eingöngu þingflokkur sjálfstæðismanna og þingflokkur framsóknarmanna, eða hluti af honum, sem eru andvígir því sem verið er að gera hér, það eru líka einstakir stjórnarþingmenn eins og ég rakti hér áðan. Það er mjög slæmt að leggja upp í þessa vegferð með þessum hætti, það segir sig alveg sjálft. Við að breyta stjórnarskránni ættu menn að vera yfirvegaðri og í meiri sálarró en margir hverjir eru. Eins og fram hefur komið í mörgum ræðum hér í dag þá held ég að bilið sé ekkert breitt á milli hv. þingmanna. Ég efast ekki um að hægt væri að ná niðurstöðu sem væri til heilla fyrir þjóðina og fyrir okkur öll um breytingar á stjórnarskránni.

Það liggur fyrir að þessi stóru mál sem menn hafa deilt um eru með öðrum hætti í dag, og við sjáum líka hvernig þetta breytist oft. Ég man eftir því hér í umræðunni um daginn að hæstv. utanríkisráðherra var minntur á það þegar hann stóð hér í ræðustól og varði 26. gr. stjórnarskrárinnar um neitunarvald forsetans. Þá var það eitt af því sem alls ekki mátti hreyfa, það var ekki til umræðu af hálfu hæstv. utanríkisráðherra. Ég held að hann sé nú á annarri skoðun í dag, að hann sé alveg tilbúinn að skoða það með opnum hug hvernig það yrði gert.

Við sjáum að svona grundvallarplagg er ekki þannig að við getum verið að breyta því eins og okkur dettur í hug og eftir því hvaða stjórnarmeirihluti er hverju sinni. Þetta eru þau lög sem við verðum að virða, hvort sem menn eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Stjórnirnar breytast og stjórnarmeirihlutarnir breytast og þess vegna er svo mikilvægt að hafa samstöðuna svona mikla um þetta mál.