139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

störf þingsins.

[14:07]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við skulum ekki gleyma því að það er hæstv. forsætisráðherra sem er ráðherra jafnréttismála og sá ráðherra hefur nú brotið jafnréttislög. Enginn þingmaður hefur verið jafnstóryrtur í garð þeirra sem hafa brotið jafnréttislög og þingmaðurinn Jóhanna Sigurðardóttir, en nú er sá ágæti þingmaður orðinn forsætisráðherra.

Sama dag og gefnar eru út siðareglur fyrir ráðherra, þar sem segir meðal annars að ráðherra eigi að leggja sig fram um að tryggja að faglega sé staðið að ráðningu og skipun embættismanna, er niðurstaða kærunefndar jafnréttismála algerlega skýr, að forsætisráðherra hafi brotið jafnréttislög. Og Jóhanna Sigurðardóttir er sami þingmaður og ráðherra og sagði um annan ráðherra er fór gegn jafnréttislögum að hjá öðrum lýðræðisþjóðum hefði sá ráðherra verið látinn fjúka sem bryti svo gróflega lög og reglur, að þetta væri áfall fyrir jafnréttisbaráttuna og lítilsvirðing við þjóð sem kennir sig við jafnrétti og mannréttindi og mælti síðan með að ráðherra færi á skólabekk.

Vinstri flokkarnir hafa sagt að jafnréttismálin séu alvörumál og til að undirstrika það hefur þessi ríkisstjórn fært jafnréttismálin yfir í forsætisráðuneytið. Á góðum stundum kennir þessi ríkisstjórn sig við kvenfrelsi, siðbót og lýðræði. Samt hefur hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, brotið jafnréttislög. Staða hennar er ekki einungis neyðarleg, hún er grafalvarleg. Því er eðlilegt að spyrja: Hvað verður gert annað en senda frá sér hrokafulla og aumingjalega yfirlýsingu, sem er ekkert annað en húmbúkk og yfirklór, en það vekur reyndar athygli að mjög lítið var gert úr kæranda í yfirlýsingu forsætisráðuneytisins fyrr í dag. Munu stuðningsmenn stjórnarinnar, þar með taldir þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingar, krefjast þess að á þessum málum verði tekið af festu og alvöru? Munu þeir sýna að einhver alvara hafi verið á bak við alla frasana um mikilvægi jafnréttismála eða var þetta allt saman innihaldslaust blaður? Hvernig ætla þau að standa jafnréttisvaktina núna?