139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

störf þingsins.

[14:09]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég held að við verðum alla vega að byrja á að finna nýjan framkvæmdastjóra því að mér skilst að hann hafi sagt af sér, framkvæmdastjóri jafnréttisvaktarinnar. En ég vil taka þetta sama mál upp og hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir nefndi.

Það er nefnilega þannig að í fyrsta sinn sem þessi lög frá árinu 2008 eru brotin er það forsætisráðherrann, sem er jafnréttisráðherrann, sem er sami ráðherrann og var félagsmálaráðherra á þeim tíma og mælti fyrir og setti þessi lög, sú fyrsta sem brýtur þau. Hún braut gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, við skipun í embætti skrifstofustjóra við skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í forsætisráðuneytinu. Þetta voru úrskurðarorðin.

Hæstv. forsætisráðherra hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún bendir á alla aðra en sjálfa sig. (Gripið fram í: Eins og venjulega.) Eins og venjulega bendir hún á alla aðra en sjálfa sig. Hún ber ekki ábyrgð, hún hafði engin afskipti af málinu. Ber hún þá enga ábyrgð á málinu?

Í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna um jafnréttismál og hlutverk forsætisráðuneytisins í þeim efnum segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Málaflokkur jafnréttismála fái aukið vægi innan stjórnkerfisins. […] Jafnréttismál flytjist í forsætisráðuneytið, áhrif kvenna í endurreisninni verði tryggð. […] Því mun ríkisstjórnin beita sér fyrir því að jafna hlutfall kynjanna á öllum sviðum samfélagsins og grípa til sértækra aðgerða sé þess þörf.“

Ég og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir tókumst á í þingsal sumarið 2009 þegar lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja á einkamarkaði voru sett. Þingmaðurinn og ég vorum ósammála. Ég benti á að það væri gagnslaust að setja íþyngjandi lög um fyrirtæki á einkamarkaði þegar opinberar stofnanir færu ekki eftir þessum ákvæðum sjálfar. Hún var mér ósammála og sagði að það þyrfti bara að sýna skýran pólitískan vilja.

Ég spyr hv. þingmann: Er sá úrskurður sem var felldur í gær skýr pólitískur vilji hæstv. forsætisráðherra um að henni sé algerlega fyrirmunað að standa við það sem hún hefur sagt áður? (Forseti hringir.)

Ég spyr líka: (Forseti hringir.) Er þingmaðurinn sammála þeim orðum sem hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir las upp áðan um að það sé allt leyfilegt hjá ráðherrum hér á landi og þeir þurfi ekki (Forseti hringir.) að sýna ábyrgð?