139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

jafnréttismál -- atvinnumál -- umsókn að ESB o.fl.

[14:16]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að ræða atvinnumál, og svo sem ekki í fyrsta skipti. Við horfum fram í síðustu viku marsmánaðar og nú ríður á að fara að huga að öllum þeim þáttum sem geta komið atvinnulífinu til hjálpar því að ella blasir við okkur undir lok þessa árs að fara að skera enn frekar niður í viðkvæmum málaflokkum. Er reyndar nóg að gert víða miðað við það sem hér hefur verið sagt í pontu.

Mig langar að eiga orðastað við varaformann sjávarútvegsnefndar um þær hugmyndir að auka aflaheimildir. Ég hef verið talsmaður þess að skoða þá möguleika af alvöru, auka jafnvel aflaheimildir, sumir segja innan áhættumarka, um 25–30 þús. tonn sem er hraðvirkasta hugsanlega innspýting í hagkerfi landsins, um 18–20 milljarða, sem kemur strax inn í íslenskan efnahag. Ef farin yrði sú leið að binda þessar veiðar við vinnsluskyldu gæti það skapað allt að 1.200 ný störf strax. Við þurfum að huga að stórtækum aðgerðum til að efla atvinnu og getum ekki verið þar í eilífri framtíðarmúsík, heldur þurfum við einnig að huga að aðgerðum sem spýta fé strax inn í hagkerfið.

Af því að sá sem hér stendur er ekki nefndarmaður í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd langar hann að athuga hvort þetta hafi komist til tals af alvöru innan nefndarinnar og hvort viðkomandi varaformaður hv. nefndar deili þessari skoðun með þeim sem hér stendur. Á að skoða slíkar hugmyndir af alvöru nú þegar útmánuðir eru að hefjast?