139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

jafnréttismál -- atvinnumál -- umsókn að ESB o.fl.

[14:23]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Það er alveg rétt að fyrir síðustu alþingiskosningar lýsti Vinstri hreyfingin – grænt framboð því mjög ítrekað og mjög víða yfir, m.a. í sjónvarpsviðtölum, að ekki yrði sótt um aðild að Evrópusambandinu. Það urðu mér mikil vonbrigði þegar slík umsókn var send inn og það hafa orðið mér enn meiri vonbrigði að sjá hvernig þessi umsókn hefur síðan þróast. Hingað streyma styrkir, þetta er að snúast upp í aðlögunarferli og við höfum þurft að horfa upp á það í Vinstri grænum að margir félagsmenn hafa gengið úr flokknum, formenn svæðisfélaga og nú síðast tveir góðir félagar mínir, hv. þm. Atli Gíslason og hv. þm. Lilja Mósesdóttir. Ég tel að það sé mikill missir að þessum þingmönnum og ég hef metið það svo að þeir menn sem hafa talað um að þetta styrki með einhverjum hætti stjórnarliðið séu með sérstakar nálganir, sér í lagi í ljósi þess að hv. þm. Lilja Mósesdóttir var í gær kosin vinsælasti þingmaður okkar á Alþingi Íslendinga og var ofarlega á blaði um síðustu áramót sem vinsælasti Íslendingurinn. (Gripið fram í.) Það bendir til þess að þeir sem láta slík ummæli falla séu í það minnsta ekki í miklum tengslum við fólk sem hringir inn og kýs fólk ársins.

Hvað varðar þessa Evrópusambandsumsókn tel ég að það þurfi að endurskoða þá vegferð. Það er ekkert nýtt, ég hef ávallt haldið þeirri skoðun minni fram. Það er öllum ljóst, ég hef haldið því opinberlega fram í þingsal, í riti og víðar. Ég bind vonir við að þessi mál verði endurskoðuð og að menn átti sig á því, eins og flestir gera, úr öllum flokkum, að þetta mál sé ekki á góðri vegferð og að þarna þurfi að endurskoða málið. Ég bind vonir við að svo verði gert.