139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

jafnréttismál -- atvinnumál -- umsókn að ESB o.fl.

[14:29]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Sýslumaðurinn í Reykjavík hefur sem kunnugt er sett lögbann á DV til að koma í veg fyrir frekari umfjöllun um fundargögn fjárfestingarfélagsins Horns sem blaðið hefur undir höndum. Alvarlega er vegið að upplýsinga- og heimildarmannavernd hérlendis enn þann dag í dag þrátt fyrir einhliða stuðning bæði þings og ríkisstjórnar við að stórefla þessi réttindi hérlendis eins og kom fram í samhljóma stuðningi við að Ísland markaði sér afgerandi sérstöðu sem styrkti réttindi málfrelsis og tjáningarfrelsis sem og upplýsingafrelsis.

Rétti sýslumanna til að starfa sem rannsóknardómarar lauk árið 1993. Þetta er sem sagt frá þeim tíma þegar sýslumenn sinntu rannsóknarréttarhlutverki. Mér finnst nauðsynlegt að innanríkisráðherra eða samþingmenn hans tryggi að sýslumenn viti að samkvæmt stjórnarskrá er fyrirframtálmun á tjáningu óheimil.

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, segir, með leyfi forseta:

„Það er fráleitt í fyrsta lagi að koma í veg fyrir að DV birti fréttirnar og í öðru lagi tekur út yfir allan þjófabálk að ætlast til að þeir gefi upp sínar heimildir. Þetta er fráleitt og þetta er tímaskekkja á 21. öldinni að fara fram á svona lagað.“

Hjálmar telur jafnframt að afhending gagnanna til Landsbankans geti teflt trúnaði fjölmiðla við heimildarmenn sína í tvísýnu og að DV geti ekki orðið við þessari kröfu.

Í greinargerð með þingsályktun sem gjörvallt þingið samþykkti segir um lögbann á útgáfu:

„Hömlur á tjáningarfrelsi er sérhver lagaleg aðgerð sem hægt er að nota til að hindra að efni sé gefið út áður en til útgáfu kemur. Slíkar hindranir hafa afar slæm áhrif á tjáningarfrelsi. Í flestum lýðræðisríkjum eru sterk og jafnvel algild takmörk á þeim. Kanna þarf hvernig tryggja megi að lög verði ekki misnotuð í tilraunum til þöggunar sem takmarka og tálma tjáningarfrelsið sem tryggt er í stjórnarskránni.“

Ég skora því á okkur öll að standa vörð um málfrelsi hérlendis (Forseti hringir.) og að þrýsta á að það lagaumhverfi sem gjörvallt þingið samþykkti að þyrfti að eiga sér stað hér verði virkt. (Forseti hringir.) Það er hægt að vinna t.d. á þessari tálmun tjáningarfrelsis strax. Það þarf ekki miklar (Forseti hringir.) rannsóknir til þess.