139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

jafnréttismál -- atvinnumál -- umsókn að ESB o.fl.

[14:33]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að ræða um lög nr. 151/2010, gengislánalögin, sem voru jólagjöf þingsins til heimilanna. Nú er fólk að fá endurútreikning á lánum sínum en það eru ekki allir eins glaðir og þingheimur hafði gert ráð fyrir. Hér er ég t.d. með endurútreikning á láni sem var tekið um mitt árið 2006. Greiðslubyrðin samkvæmt áætlun var 132 þús. kr. á mánuði en er nú komin eftir endurútreikning í 301 þús. kr. Þetta er sem sagt 128% hækkun. Þetta er mun meiri hækkun en áður en lánið var leiðrétt. Þá var afborgunin 245 þúsund. Þetta finnst mér algerlega ótækt.

Umboðsmaður skuldara og starfsmenn hans komu á fund tveggja þingnefnda síðasta föstudag. Í máli þeirra kom fram að lögfræðingar þeirra teldu lögin stangast á við neytendalöggjöf ESB sem lá fyrir áður en lögin voru samþykkt og væru þar með samningsbrot á EES-samningnum, einnig að þau brytu í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og stönguðust á við mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Þetta er nú vönduð löggjöf, jólagjöf þingsins til heimilanna.

Ég tók með mér samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þar er fínn og flottur kafli um mannréttindi. Ég ætla aðeins, með leyfi forseta, að grípa niður í hann:

„Mannréttindasamningar sem Ísland hefur undirritað og fullgilt verði leiddir í lög ásamt því að gerð verði áætlun í mannréttindamálum að norrænni fyrirmynd. Mannréttindafræðsla efld á öllum skólastigum.“

Mig langar að biðja þá þingmenn sem samþykktu þessi lög að hugsa sinn gang.