139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

fundarstjórn.

[14:40]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að taka undir þá beiðni sem fram kom hjá hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur. Mér finnst ekki öllu máli skipta hvort hér verður utandagskrárumræða eða hæstv. forsætisráðherra verði fengin hingað til að flytja skýrslu um það lögbrot sem hún og ráðuneyti hennar hefur nú verið úrskurðað um að hún hafi gerst sek um heldur að umræðan fari fram. Ég fæ ekki séð hvers vegna hæstv. forsætisráðherra ætti ekki að geta gefið þinginu skýrslu nú þegar þar sem forsætisráðuneytið hefur þegar sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins sem ástæða er til að ræða.

Það er líka ástæða til að gefa fulltrúum annarra þingflokka tækifæri til að fjalla um málið og segja skoðanir sínar á embættisfærslum og lögbrotum hæstv. forsætisráðherra, eins og t.d. þingmönnum Vinstri grænna sem ekki hafa tekið þátt í þessari umræðu en hæstv forsætisráðherra sækir a.m.k. enn þá umboð sitt til.