139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

fundarstjórn.

[14:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka svör hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur og hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur áðan sem voru mjög skýr að mínu mati þar sem þær taka undir með okkur að þetta er grafalvarlegt mál. Það komust einfaldlega ekki fleiri að í þeirri mikilvægu umræðu. Þetta er stórt og mikilvægt mál og skiptir miklu hvaða skilaboð í jafnréttismálum ríkisstjórnin en ekki síður Alþingi, sem hefur eftirlitshlutverk með ríkisstjórninni, er að senda út til samfélagsins og til lengri tíma. Þess vegna vil ég hvetja hæstv. forseta að beita sér fyrir því að taka upp þá beiðni sem hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir setti fram varðandi umræðu um skýrslu um þetta mál þannig að við þingmenn getum öll tjáð okkur á lengri tíma um þetta grafalvarlega mál, þetta lögbrot af hálfu forsætisráðherra.

Þess vegna hvet ég hæstv. forseta, sem ég veit að hefur verið og er mikill jafnréttissinni, að taka þetta mál upp og reyna að hliðra til í dagskrá þingsins þannig að við getum öll tjáð okkur og sent þau skýru skilaboð að við ætlum að standa vörð og efla jafnrétti til lengri tíma.