139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

staða Íbúðalánasjóðs.

[15:19]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Eitt hefur komið í ljós við þessa umræðu en það er að allir, að ég held, bera hag Íbúðalánasjóðs sérstaklega fyrir brjósti nema Sjálfstæðisflokkurinn, hann virðist ekki hafa miklar áhyggjur af þessu eða mikinn áhuga og vill að við tökum aftur upp einkabankalánin ef ég skil það sem hér hefur komið fram. Túlkun eins og sú frá hv. þm. Pétri H. Blöndal um einkabankana, að bara hluthafar hafi tapað á hruninu er alveg ótrúleg skýring sem ég hef aldrei heyrt fyrr í þingsal í tengslum við hrunið.

Sama er þegar hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson segir að hér sé tröllvaxinn vandi á ferðinni. Hvað var þá hrun Seðlabankans? Ég tek það sem dæmi til samanburðar þó ég fari nú ekki að miða við eitthvað annað. Og það sé stórhættulegt að vera með ríkisábyrgð en vextir þurfi að vera lægri. Slíkar andstæður ganga ekki upp í mínum huga.

Það komu fram ýmsar athugasemdir. Hv. þingmaður og málshefjandi Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, en við berum báðir hag Íbúðalánasjóðs fyrir brjósti, talar um tölurnar og ríkisstjórnin hafi lagt þær fram. Það er auðvitað ekki þannig. Íbúðalánasjóður leggur allar tölur fram. Enginn annar getur lagt fram tölurnar, einfaldlega vegna þess að þetta er upplýsinga- eða tilkynningaskyld starfsemi og við pössum okkur á því að engar tölur komi frá öðrum en þeim aðila sem ber ábyrgð á rekstrinum og stjórninni sem þar situr.

Varðandi hvort frekar hefði átt að fara 20%-leiðina þá má alltaf deila um það. En ég get nefnt eina af ástæðunum fyrir því að ég hafði miklar efasemdir um hana á sínum tíma því það er rangt sem hér hefur margoft verið sagt að sú leið hafi ekkert verið skoðuð. Hún var að sjálfsögðu skoðuð. Ástæðan var sú að ef við tókum 20% af 700 milljarða lánasafni Íbúðalánasjóðs og færðum það niður, eigandi eftir að taka vanskilin því til viðbótar, þá vorum við strax að tala um 140–150 og jafnvel upp í 200 milljarða sem hefðu fallið beint á ríkissjóð, fyrir utan allt annað. Þetta voru umræðurnar sem áttu sér stað á þeim tíma.

Varðandi að tengja þetta við Icesave-málið er það ákveðin snilld málshefjanda, ég ætla ekki að ræða það sérstaklega en hægt er að deila um þær tölur sem þar koma fram. En það er að minnsta kosti ljóst að í því frumvarpi sem liggur fyrir varðandi Icesave virðast ætla að koma út tölur um heildarkostnað (Forseti hringir.) sem eru alla vega mun þekkilegri en margar aðrar tölur í hruninu.