139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[15:37]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, synjaði Icesave-lögunum staðfestingar í annað sinn lýsti hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, því yfir að hann væri ekki bara undrandi á þeirri ákvörðun, hann væri forundrandi á þeirri ákvörðun forsetans. Ég var viðstaddur fyrir einhverjum vikum jarðarför hjá góðum vini mínum, hæstaréttarlögmanni sem nú er fallinn frá, sem hafði átt farsæla starfsævi í rúma hálfa öld. Honum fylgdi líklega meira og minna öll stétt lögfræðinga á Íslandi. Þar voru samankomnir ungir lögfræðingar jafnt sem aldnir. Þeir áttu það sameiginlegt með hæstv. fjármálaráðherra að vera forundrandi, ekki á þeirri ákvörðun forseta Íslands að synja Icesave-lögunum staðfestingar heldur á þeirri tillögu sem hér er til umfjöllunar, tillögu um að skipað verði stjórnlagaráð á rústum stjórnlagaþings sem til stóð að koma hér á fót. Þar spurðu menn hvað væri að gerast á Alþingi, hvort löggjafinn og alþingismenn væru ekki klárir á því og þeim ekki kunnugt um það að niðurstöður æðsta dómstóls landsins væru endanlegar, þ.e. niðurstöður Hæstaréttar Íslands, og að þeim bæri að hlíta. Ég átti erfitt með að svara þessum spurningum öðruvísi en svo að við mér blasti að hér á þinginu væru hv. alþingismenn sem væru þeirrar skoðunar að breyta ætti þeim sáttmála sem allir hafa farið eftir hér á Íslandi, bæði alþingismenn og aðrir, að okkur bæri að hlíta niðurstöðum æðsta dómstólsins.

Nú hefur það breyst. Þegar menn lesa þessa tillögu um skipun stjórnlagaráðs sjá menn, a.m.k. allir sanngjarnir menn, að með henni er gerð tillaga um að niðurstaða Hæstaréttar um ógildingu kosningar til stjórnlagaþings skuli að engu höfð, að ekkert verði með hana gert, að þrátt fyrir að kosning til stjórnlagaþings hafi verið ógilt af Hæstarétti Íslands skuli samt haldið áfram eins og að ekkert hafi í skorist, eins og að Hæstiréttur Íslands hafi í raun ekki komist að neinni niðurstöðu. Það eina sem er gert er að það er breytt um nafn og kennitölu á stjórnlagaþinginu en því svo haldið áfram og lagt til að þeir 25 einstaklingar sem hlutskarpastir voru í kosningu sem ógilt var af Hæstarétti Íslands skuli engu að síður skipaðir, að þeim skuli falið sama verkefnið við sömu kjör og á sama stað og til stóð að standa að vinnu við að útbúa tillögur til breytinga á stjórnarskrá lýðveldisins. Undir þessi sjónarmið sem ég heyrði í þessari jarðarför tóku auðvitað allir þeir fræðimenn sem komu á fund allsherjarnefndar til að segja skoðun sína á þessu frumvarpi.

Ég las hér upp í fyrri ræðu minni í umræðu um þetta mál merka grein sem minn gamli prófessor, Sigurður Líndal, skrifaði í Fréttablaðið þann 17. mars 2011 þar sem hann kemst að þessari niðurstöðu og segir jafnframt að þeir sem standa að þessari tillögu sniðgangi meginreglu stjórnarskrárinnar sem ekki gildir bara á Íslandi heldur í stjórnarskrám flestra lýðræðisríkja sem ég þekki, þ.e. regluna um þrígreiningu ríkisvaldsins. Hann útlistar mjög skýrt með hvaða hætti Alþingi er að gera tilraun til að taka fram fyrir hendurnar á Hæstarétti Íslands og ógilda fyrri ákvarðanir um að Hæstiréttur skeri úr um gildi kosningarinnar. Þessi sjónarmið komu einnig fram hjá öðrum lagaprófessorum sem komu fyrir nefndina, Róberti Spanó og Ragnhildi Helgadóttur. Það má í raun segja að allir þeir sem hafa tjáð sig um þetta mál og kynnt sér stjórnskipunarrétt og stjórnskipunarmál til hlítar og eru fræðimenn á því sviði hafi komist að sömu niðurstöðu. Því miður var það þannig að okkur í minni hlutanum tókst ekki að fá til fundar í allsherjarnefnd alla þá fræðimenn sem við töldum nauðsynlegt að fá til skrafs og ráðagerða við nefndina áður en málið yrði klárað. Sú ákvörðun er auðvitað á forræði forustu allsherjarnefndar. Það fannst mér miður eins og ég hef áður sagt. Ég fordæmi þá málsmeðferð og mótmæli henni, en ég skil auðvitað að fólk sem ber fram tillögur eins og þessa sem hljóta jafnafdráttarlaus mótmæli, slæmar undirtektir og fá jafnmargar falleinkunnir í umfjöllun sérfræðinga séu ekkert sérstaklega spenntir fyrir því að heyra sjónarmið umfram það sem verið hafði.

Við hv. þm. Birgir Ármannsson höfum í nokkuð ítarlegu máli farið yfir meginsjónarmið okkar sem fram koma í því nefndaráliti sem hér hefur verið lagt fram. Við útlistum af hverju við komumst að þeirri niðurstöðu að með tillögunni sé það lagt til að farið verði á svig við niðurstöður Hæstaréttar og tiltökum fleiri álitamál sem vakna við lestur þingsályktunartillögunnar.

Þó er eitt atriði sem ég kom ekki að í minni fyrri ræðu og finnst ástæða til að nefna hér. Það er að gert var ráð fyrir því í upphafi að stjórnlagaráðið mundi ljúka vinnu sinni við endurskoðun stjórnarskrárinnar þann 1. júní nk. Það er ótrúlegt að sú tímasetning miðast við það að þann dag rennur út leigusamningur húsnæðis sem stjórnlagaráðinu er ætlað að starfa í. Ég hygg að það þekkist hvergi á byggðu bóli að gildistími húsaleigusamnings sé látinn ráða vinnu manna við jafnmikilvægt verkefni og stjórnarskrá hvers lands er. Mér finnst sú staðreynd ein ramma inn og undirstrika hvers konar klúður og niðurlæging þetta mál er frá upphafi til enda fyrir alla þá sem að því standa.

Virðulegi forseti. Við sjálfstæðismenn höfum viljað fara aðrar leiðir. Við höfum viljað endurskoða stjórnarskrána. Við höfum margoft sagt það og ég hef m.a.s. lýst því hvaða ákvæði það eru í stjórnarskránni sem ég tel einsýnt að þurfi að taka til endurskoðunar.

Ég ítreka það sem fram kom á fundi allsherjarnefndar hjá einum gesta hennar, Jóni Kristjánssyni, framsóknarmanni og fyrrum hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég nefni það sérstaklega í ljósi þess hver situr í forsetastól. Hann var formaður stjórnarskrárnefndar á árunum 2005–2007. Hann upplýsti nefndina um það að þegar sú stjórnarskrárnefnd lauk störfum var afar fátt sem stóð út af borðinu og leiddi til þess að nefndin skilaði ekki af sér niðurstöðu. Það var í rauninni eitt atriði, 26. gr. stjórnarskrárinnar, synjunarvald forseta Íslands. Þar tókust fyrst og fremst á fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúar Samfylkingarinnar í nefndinni. Ég hygg eftir það sem síðan hefur gengið á sé komið annað hljóð í strokkinn hjá a.m.k. Samfylkingunni hvað það atriði varðar og sömuleiðis hugsanlega hjá sjálfstæðismönnum sem leiðir til þess að a.m.k. ég er bjartsýnni á að menn geti leyst úr þeim vanda sem þá var uppi með því að leggja fram sameiginlega á þinginu breytingartillögur (Forseti hringir.) við stjórnarskrána sem eru heildstæðar hvað það atriði varðar og önnur ákvæði stjórnarskrár eins og auðlindaákvæði, ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur (Forseti hringir.) og önnur þau atriði sem helst hafa verið til umfjöllunar í tengslum við stjórnarskrárbreytingar.