139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:09]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég og hv. þm. Birgir Ármannsson áttum sæti í þessari nefnd alveg frá upphafi þar sem farið var af stað með stjórnlagaþingið. Við bentum á það frá fyrsta degi að mestu vandræðin við stjórnlagaþing væru fólgin í því hverjir ættu að sitja á því og hvernig væri valið á það. Það hefur svo komið í ljós síðan að sú hefur verið raunin. Málið var bætt mjög frá upprunalegu frumvarpi. Stjórnlaganefndinni var bætt inn í það og einnig þjóðfundinum. Ef 79. gr. hefði eingöngu verið breytt hefðu menn kannski engu að síður setið uppi með þau vandræði sem hafa svo komið í ljós síðan, hvernig á að velja á stjórnlagaþing.

Við höfum alla tíð bent á það að eina rökrétta leiðin til að velja á stjórnlagaþing þar sem fulls jafnræðis sé gætt sé í gegnum slembiúrtak úr þjóðskrá. Það féll ekki vel að hugmyndum þeirra sem stýrðu þessari vinnu á sínum tíma.

Hvað varðar þessa einstöku breytingartillögu átta ég mig ekki alveg á því hvers vegna hún gengur ekki upp í huga þingmannsins eins og hún er sett fram, að flytja þurfi fleiri þingmál varðandi það. Þetta er einfaldlega breytingartillaga við þingsályktunartillöguna sem þarna kemur fram og er svona viðbót við þá aðferð sem lögð er til að verði notuð við að breyta stjórnarskránni. Ég tel ekki að það þurfi neitt sérstakt þingmál um það.