139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi skilgreiningu á fullveldi þjóða mundi ég segja að þjóð sem ekki getur samið um utanríkismál sín sé ekki fullvalda. Þar á meðal eru t.d. Danir vegna þess að Evrópusambandið fer með utanríkismál fyrir þá. Ég hugsa að Jón Sigurðsson hefði ekki átt í neinum vandræðum með að skilgreina hvað er fullveldi lands. Það er dálítið undarleg þróun að Ísland skuli nú vera fullvalda í þeim skilningi að það geti gert samninga við hvaða ríki í heiminum en Danmörk ekki. Jón Sigurðsson barðist jú gegn yfirráðum Dana á Íslandi en Danmörk er ekki lengur fullvalda í þessum skilningi.

Varðandi auðlindirnar. Ég hef minnst á það áður að árið 2008 var fyrsta árið í allri Íslandssögunni sem enginn maður fórst á sjó. Mér finnst að menn eigi að halda meira upp á það vegna þess að það er óskaplegur sigur. Þess vegna tel ég að sjávarútvegurinn hafi nýverið orðið auðlind vegna þess að mannfórnir til að draga björg í bú eru ekki lítið verð. Sjávarútvegurinn var ekki auðlind.

Hins vegar benti ég á það áðan og fékk ekki viðbrögð við því, kannski vegna tímaleysis, að ef Evrópusambandið getur skilgreint hafsvæði í kringum Ísland sem sérsvæði og sagt að þar megi Íslendingar veiða getur það alveg eins breytt því til baka eftir 10 ár. Ef stefnan er svona breytileg og hægt er að hagræða henni geta þeir bara breytt henni aftur. Það er engin trygging fyrir því að það sem samið verður um haldi um aldur og ævi.