139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir drengilegt og heiðarlegt svar af hálfu framsóknarþingmanns. Hún gerir það sem við gerum því miður allt of sjaldan, að viðurkenna það einfaldlega að þegar eitthvað tekst ekki að þá verði að fara aðrar leiðir. Það hefur ríkisstjórnin hins vegar ekki gert. Hún þverskallast við því og reynir að fara einhverjar fjallabaksleiðir. Við höfum fengið álitsgjafa til að segja það fyrir framan okkur, eins og fyrrverandi prófessor Sigurður Líndal, hann hefur einfaldlega kallað þetta stjórnarskrársniðgöngu. Og það er þar sem hnífurinn stendur í kúnni, það er að reyna að beina ríkisstjórninni inn á rétta braut og reyna að fá forustu ríkisstjórnarinnar til að skilja að það er styttra á milli einstaklinga, á milli þingmanna en menn vilja láta vera. Af hverju á þá ekki að reyna á það? Þess vegna vil ég fagna því sérstaklega að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir og fulltrúi Framsóknarflokksins í allsherjarnefnd skuli tala með jafnafgerandi hætti og hún gerir núna.