139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:07]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann eftir afbragðsræðu hversu alvarlegt þingmaðurinn telur þetta mál vera og hvort það sé þingtækt á grunni lagahefða landsins, líka í ljósi þess að ríkisstjórnin sendir skósveina sína með tillögu gegn niðurstöðu Hæstaréttar.

Í öðru lagi: Eru dæmi um það að niðurstaða Hæstaréttar hafi verið ómerkt af stjórnendum landsins? Það er miklu nær að líkja þessu við 400 metra hlaup. Hlauparinn hleypur ekki nema helminginn, fer yfir miðjan völlinn. Hvað yrði gert við þann hlaupara? Hann yrði dæmdur úr leik. Ekki fengi hann bikar og ekki fengi hann verðlaun.

Í þriðja lagi: Er afstaða ríkisstjórnarinnar í þessu máli þannig að hún vísi til allra átta í senn? Eftir slíkri kompásnál siglir enginn í heila höfn. Þetta minnir svolítið, virðulegi forseti, á fund sem þeir áttu saman á Austfjörðum fyrir mörgum árum, Helgi Seljan og Sverrir Hermannsson. Sverrir var ekki í stuði og Helgi keyrði botnlaust yfir hann á fundinum en í lok fundarins þegar allt var í upplausn stóð Sverrir Hermannsson upp og orti þessa vísu:

Á að telja hann æðsta goð?

Er hann Seljan bestur?

Er þá hveljan ullarvoð?

Er þá beljan hestur?

Það er ekki eitt, það er allt upp í loft hjá hæstv. ríkisstjórn og þetta er gott dæmi um það, virðulegi forseti.