139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:09]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir að koma upp í andsvar við mig. Í fyrsta lagi spyr hann hversu alvarlegt málið sé og hvort það sé þingtækt. Að mínu viti er það ekki þingtækt og við ættum ekki að vera að eyða tíma til að ræða það.

Það er ekki brot á stjórnarskránni að hafa lagt þetta fram vegna þess að ekki er hægt að finna því stað, en að Alþingi skuli ganga fram og taka þetta mál á dagskrá frá fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna og valta þar með yfir Hæstarétt er forkastanlegt og mundi hvergi nokkurs staðar á Norðurlöndunum vera liðið. En hér sitjum við uppi með ríkisstjórn eins og ég fór yfir áðan, ríkisstjórn sem er dæmd nánast einu sinni í viku. Henni dettur ekki í hug að fara frá. Hún hagar sér áfram eins og gert var fyrir hrun, að koma með mál inn í þingið algerlega á skjön við allt.

Ég hef lagt fram frumvarp ásamt flestum þingmönnum Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar um lagaskrifstofu Alþingis til að bæta lagasetningu, til að við þingmenn höfum aðgang að lagaprófessorum. Þetta var skýrt í rannsóknarnefnd Alþingis að hér yrði að bæta lagasetningu. Þessi ríkisstjórn hlustar ekki á neitt því að hún er á einhverju ferðalagi sem er alveg að enda úti í skurði. Ég held að hún sé komin á skurðbakkann og það sýnir best ástandið á ríkisstjórninni í þinginu.

Þingmaðurinn spurði líka um það hvernig brugðist hafi verið við áður varðandi mál í Hæstarétti. Alþingi hefur brugðist við á þann hátt að ef Hæstiréttur dæmir að lög séu gölluð eða stangist á við stjórnarskrá, þá ber Alþingi að koma með nýja lagasetningu sem lagar þann galla en fer ekki og setur ný lög sem viðheldur gallanum (Forseti hringir.) eða sem fer á móti niðurstöðu Hæstaréttar. Þannig verður löggjafinn að bregðast við dómum Hæstaréttar.