139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:13]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal kærlega fyrir. Ég hef verið með fyrirspurnir um þetta í allsherjarnefnd og rætt í þinginu en fæ engin svör við þessu frá flutningsmönnum tillögunnar vegna þess að í fyrsta lagi tel ég að það sé á mörkunum að flutningsmennirnir skilji sjálfir út á hvað þetta kosningakerfi gengur. Þetta snýst ekki bara um aðalmenn, og eins og hv. þingmaður benti á voru hvergi kosnir varamenn. Ég skrifaði grein í blöðin löngu fyrir áramót þar sem ég benti á að einungis 11 aðilar af þeim 25 hlutu löggiltan sætishlut til að taka sæti á þinginu. Það voru einungis 11 aðilar sem náðu því að fá 3.167 stig, hinn útreiknaða sætishlut samkvæmt lögunum.

Ég held nefnilega að það hafi gerst að svo flókin kosningalög hafi verið samin að örfáir Íslendingar skilja þau. Það besta við það að frumvarpshöfundar sem koma að þessum útreikningsreglum fóru báðir í framboð og þeir hlutu báðir kosningu á stjórnlagaþingið. Þetta segir kannski meira um útreikningana en annað.

Varðandi það sem við erum að tala um, þ.e. þá sem ætla að taka sæti, verði þetta að lögum, þá er ekki tekið tillit til þess neins staðar í þingsályktunartillögunni hvernig á að raða þeim inn nema að þessu er beint að 25 aðilum sem viðkomandi flutningsmenn telja að séu efstir. Segjum að einn eða tveir aðilar dragi sig til baka í sæti 1–11 þá er þar með allt kerfið hrunið og um leið er komin önnur röð á einstaklingana. Flutningsmenn ætla að líta alfarið fram hjá þessu og segja sem svo: Þarna eru 25 aðilar sem við ætlum að gera að stjórnlagaráðsmönnum. Og að þær reiknireglur skipti ekki máli sem voru í gildi við stjórnlagaþingið (Forseti hringir.) og kippa þar með lögunum úr sambandi — en takið eftir, það á samt að hafa kynjakvótann inni. (Forseti hringir.) Þetta er allt orðið svo undarlegt og meðal annars út af þessu er málið ekki þingtækt.