139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil spyrja hv. þingmann sem lögmann. Segjum nú að þetta verði samþykkt á Alþingi sem aldrei skyldi verða og segjum að einhver einn detti úr röðinni og aðrir séu þá færðir upp og síðan sé leitað til einhvers eins aðila til viðbótar sem væri þá næstur. Er þá ekki hætta á því að einhver sem væri aftar í röðinni, sama hver væri, kæri það og segði að við það að þessi eini datt út þá kynni hann að hafa fallið inn, af því að það riðlaðist allt saman í kerfinu? Er ekki töluverð hætta á því vegna þess hve reglurnar eru viðkvæmar fyrir talningu?

Svo kom hv. þingmaður inn á annað atriði, mistök hafi orðið við talningu, eitthvað hafi misfarist með atkvæði. Er það ekki mjög varasamt, þegar um svo viðkvæma talningu er að ræða, þar sem öll röðin getur riðlast ef eitthvað breytist?