139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:19]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Hæstv. umhverfisráðherra segist vera í pólitík og ætlar því ekki að fara að lögum. Það er mjög skýrt. Það skilja allir að menn eru í pólitík en við vitum líka að við þurfum að fara eftir lögum.

Við erum með forsætisráðherra sem fékk í gær ákveðinn úrskurð, niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála. Þegar hæstv. forsætisráðherra var félagsmálaráðherra fyrir nokkrum árum fékk hún á sig þann dóm að hafa ekki hlýtt stjórnsýslulögum af því að hún kunni ekki við að viðkomandi aðili var framsóknarmaður. Hann hafði unnið sér það til miska og þess vega var honum komið úr ákveðinni nefnd. Þá var hún félagsmálaráðherra. Nú er hún orðin forsætisráðherra og brýtur jafnréttislög sem jafnréttismálaráðherra og forsætisráðherra því það er sami einstaklingurinn. Við skulum vera minnug þess að ríkisstjórnin færði jafnréttismál til forsætisráðuneytisins til að auka vægi þeirra. Hvað gerist? Alveg það sama og hjá hæstv. umhverfisráðherra. Það á ekki að fara eftir úrskurðinum. Miðað við yfirlýsingu frá forsætisráðuneytinu í dag er talið að forsætisráðherra hafi ekki farið gegn lögum. Sjáum hvað setur í því máli, það á enn eftir að vinna úr því en við skulum vona að ekki verði farin sú leið sem nú er verið að gera. Það er alltaf þessi sniðganga, sniðganga við lögin, sniðganga við ákvarðanir kærunefnda eða úrskurði. Það er ekkert annað en það sem við erum að ræða í dag. Það er endalaus sniðganga, vissulega með mismunandi flutningsmönnum, með hv. þingmönnum Álfheiði Ingadóttur og fleirum, en auðvitað vitum við að þessi tillaga er sett fram eftir hugmynd og uppskrift hæstv. forsætisráðherra. Það er enginn annar sem ber ábyrgð á þessu eða ekki í jafnríkum mæli og hún. Að detta það í hug að nýta niðurstöðu ógildra kosninga til að skipa í ráð sem hefur í rauninni efnislega sama hlutverk og stjórnlagaþingið er algerlega makalaust.

Það kemur engum á óvart — ég sagði það í gær að við sjálfstæðismenn teljum svo — og það er algerlega óbreytt, óbreytt samkvæmt stjórnarskrá, óbreytt samkvæmt stjórnskipan landsins, að stjórnlagaþingið er hér. Við höfum aldrei gefið frá okkur stjórnskipunarhlutverkið og við munum einfaldlega taka það hlutverk núna, gangast undir það og fara saman í þá vegferð sem við getum sameinast um. Þær sviðsmyndir sem flokkarnir hafa brugðið upp og eru nokkuð misjafnar er engu að síður hægt að tengja þegar kemur að stjórnarskránni. Það er einfaldlega eins og ríkisstjórnin með hæstv. forsætisráðherra í broddi fylkingar vilji ekki láta reyna á sáttina sem auðvelt er að ná. Það er hægt að tengja þessar sviðsmyndir með þeim hætti að við stöndum uppi með stjórnarskrá eftir einhverja mánuði sem við getum verið stolt af.

Ég er sannfærð um að það þarf bara raunverulegan vilja til að nýta það umhverfi sem nú er til staðar, niðurstöðu þjóðfundarins. Það er rétt eins og við sjálfstæðismenn megum ekki koma með tillögu um að breyta gamla málinu, þ.e. stjórnlagaþinginu, sem var ráðgefandi og koma fram með tillögur af því að við vorum á móti stjórnlagaþinginu. Nei, við erum í stjórnarandstöðu og það sem stjórnarandstöðu ber að gera þó að hún sé á móti málum er að koma með tillögur ef þær eru þess eðlis að þær bæti mál. Þess vegna kom ég m.a. fram með tillöguna og hugmyndina um þjóðfundinn. Hann fór vel fram, þúsund manna dúndurfundur sem kom með fullt af tillögum, þverskurður af þjóðinni, og tillögur og hugmyndir voru settar skipulega niður á blað, hugmyndir sem við innan þingsins getum notað. Það sama varðar stjórnlaganefndina sem hefur verið til ráðgjafar og hefur unnið mjög mikla vinnu. Ég veit að mikið af upplýsingum liggur fyrir. Þær getur Alþingi Íslendinga nýtt. Það sama gildir náttúrlega um það gríðarlega magn upplýsinga sem gamla stjórnarskrárnefndin undir forustu Jóns Kristjánssonar framsóknarmanns setti fram á sínum tíma. Allt þetta er hægt að gera. Af hverju er hægt að gera það núna? Jú, það er út af því — og ég kom inn á það í ræðu minni í gær — að Samfylkingin er búin að falla frá skilyrðislausri kröfu sinni og þeirri einu skjaldborg sem hún hefur kunnað að mynda um greinarnar í stjórnarskránni sem snerta forsetaembættið. Menn eru reiðubúnir til að ræða það núna innan Samfylkingarinnar og það er vel. Það sama á við um okkur sjálfstæðismenn. Okkur hefur verið brigslað um að við viljum ekki auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Það er rangt. Það er algerlega rangt eins og vinna okkar til að mynda í sáttanefndinni í sjávarútvegi ber skýrt merki um og gefur til kynna að við viljum setja inn auðlindaákvæði í stjórnarskrá, auk þess sem fyrri formaður flokksins lagði fram breytingartillögu með formanni Framsóknarflokksins þar um. Þeir stóru vankantar sem voru á því að menn gætu farið í breytingar á stjórnarskránni innan þingsins eru horfnir að mínu mati.

Ég hef dregið fram og sagt: Það er undantekning en ekki regla að þingið hafi lent í þeirri pattstöðu á undanförnum áratug, eins og 2005–2006, að geta ekki breytt stjórnarskránni. Það var undantekning á reglunni, þeirri reglu að þingið er fullfært um að breyta stjórnarskránni (Gripið fram í: Það hefur gert það mörgum sinnum.) og hefur gert það mörgum sinnum. Stórum köflum hefur verið breytt eins og mannréttindakafla stjórnarskrárinnar, 15 greinum. Þess vegna finnst mér sárt að horfa upp á Alþingi Íslendinga ekki komast í þá sameiginlegu vinnu á grundvelli sáttar af því að nokkrir einstaklingar innan ríkisstjórnarinnar koma í veg fyrir það vegna þvergirðingsháttar og ekki neins annars. Það á alltaf að láta reyna á sáttina, að reyna að semja þegar menn standa frammi fyrir erfiðum valkostum, það vitum við.

Ég vil aftur undirstrika afstöðu okkar sjálfstæðismanna til þessa máls. Það er eðlilegt að menn setji saman hóp eða nefnd sem fer yfir hvernig eigi að bregðast við niðurstöðu Hæstaréttar. Ef menn vildu stjórnlagaþingið hefðu þeir átt að fara í þá vinnu alveg frá upphafi, byrja aftur á byrjunarreitnum og auglýsa og fara í alla þá vinnu og reyna að læra af því sem miður fór í þeirri kosningu sem var ógilt af Hæstarétti, eða hætta ella við allt heila klabbið og beina vinnunni inn í þingið eins og við sjálfstæðismenn höfum margsagt.

Vinnubrögðin koma ekki á óvart. Vinnubrögðin eru eins og þau eru. Það var athyglisvert þegar ég fór yfir mælendaskrána í gær og tók eftir að enginn vinstri grænn tók til máls í þessu máli nema fyrsti flutningsmaður sem er Álfheiður Ingadóttir. Aðrir hafa ekki sýnt málinu áhuga, ekki frekar en í fyrirspurnatímanum áðan eða liðnum störf þingsins þar sem enginn þingmaður Vinstri grænna kom upp til að tjá sig um lögbrot hæstv. forsætisráðherra þegar kemur að jafnréttismálum. Það er önnur saga en segir engu að síður margt um ástandið á stjórnarheimilinu en líka um vinnubrögðin sem eru til þess fallin að gera mál sem að mínu mati eru ekkert sérstaklega góð enn þá verri. Þess vegna segi ég og hef oft sagt að það er engin tilviljun að fyrstu kosningar í sögu lýðveldisins hafi verið ógiltar á vakt vinstri manna, á vakt vinstri stjórnar. Það er auðvelt að setja beintengingu og samasemmerki þar á milli en um leið verð ég líka að draga fram að ég er fegin því að dómsmálaráðherra sem kallast núna hæstv. innanríkisráðherra stendur með Hæstarétti þó að hann hafi hnýtt í hann í byrjun, hann tekur ekki undir þær vafasömu raddir og tekur ekki þátt í þeim leðjuslag sem hófst með árás á Hæstarétt fyrst eftir að ákvörðun Hæstaréttar lá fyrir og hafi hann þökk fyrir það.

Ég ítreka það sem ég hef áður sagt í þessu máli. Ég er andsnúin því. Ég tel að breytingar á stjórnarskránni eigi að vera áfram á því stjórnlagaþingi sem nú er til staðar og það er Alþingi Íslendinga.