139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:57]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Nú líður að lokum þessarar síðari umræðu um þingsályktunartillögu hv. þingmanna Álfheiðar Ingadóttur, Valgerðar Bjarnadóttur og Birgittu Jónsdóttur um skipun stjórnlagaráðs. Umræðan hefur einkennst af því að gagnrýnendur tillögunnar hafa látið mun meira að sér kveða. Ef frá eru skilin 1. flutningsmaður málsins, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, og formaður allsherjarnefndar, hv. þm. Róbert Marshall, hefur ekki mikið kveðið að stuðningsmönnum málsins. Þorri þeirra sem virðist ætla að veita málinu brautargengi hér í þinginu hefur ekki látið svo lítið að taka til máls um það. Þó er í öðru orðinu látið í veðri vaka að málið sé afar mikilvægt og brýnt og verði að hafa forgang í þinginu fram yfir önnur mál.

Það er líka athyglisvert að helstu ábyrgðarmenn málsins, þá er ég að tala um málið frá upphafi, þann feril stjórnarskrárbreytinga sem settur hefur verið í gang, hafa ekki sést í þessari umræðu, t.d. hefur hæstv. forsætisráðherra ekki sést. Er hún þó sá þingmaður sem fyrst orðaði þá leið sem lögð er til í tillögunni hér í sölum Alþingis, en það gerðist sama dag og ákvörðun Hæstaréttar um ógildingu stjórnlagaþingskosninganna í nóvember var gefin út. Ég ætla ekki að fara meira eða ítarlegar í efnisatriði málsins.

Ég vildi bara segja við lok þessarar umræðu að að mínu mati er hér verið að stefna úr einu öngstrætinu í annað þegar litið er til ferils þessa máls. Málið var komið í fullkomið öngstræti eftir ógildar stjórnlagaþingskosningar. Að mínu mati er verið að stefna ferlinu í annað öngstræti með þeirri leið sem bera á undir atkvæði á morgun.

Ég held að það hljóti að vera umhugsunarefni fyrir hv. alþingismenn, sérstaklega þá sem látið hafa í veðri vaka að þeim sé mjög í mun að fá fram endurbætur á stjórnarskránni, að á þeim tveimur árum sem liðin eru frá alþingiskosningum, vorið 2009, höfum við oft og iðulega rætt form og aðferðir við stjórnarskrárbreytingar hér í þinginu en ekki efni stjórnarskrárbreytinga, ekki innihaldið, ekki hinar efnislegu breytingar sem menn vilja gera. Erum við þó að íslenskri stjórnskipan til þess kjörin að fjalla um það. En við höfum eytt miklum tíma í að ræða um formið, aðferðina, leiðina.

Ég vildi spyrja hv. þingmenn hvort tímanum sem við höfum varið í þessi formsatriði, alls konar tilraunastarfsemi með formið, tilraunastarfsemi til hliðar, utan við og í ósamræmi við íslenska stjórnskipan, hefði ekki verið betur varið í að ræða innihald stjórnarskrárinnar, þær efnislegu breytingar sem við hugsanlega viljum gera, frekar en ræða bara formið, hið ytra byrði ef svo má segja, rammann? Það er mín skoðun.

Það er skoðun mín að við eigum þess enn þá kost að koma breytingum á stjórnarskrá í skilvirkara ferli, í markvissari og miklu ódýrari vinnu. Þær tillögur, sem fela meðal annars í sér að Alþingi taki aftur fullkomið forræði yfir þessari vinnu, þessum undirbúningi stjórnarskrárbreytinga, er meðal annars að finna í nefndaráliti okkar sjálfstæðismanna úr allsherjarnefnd — ég ætla ekkert að fara fleiri orðum um það. Ég held að það væri miklu skilvirkari leið og betur í samræmi við þá stjórnarskrá sem enn er í gildi, (Forseti hringir.) og miklu líklegri til að skila árangri en sú tillaga sem hér liggur fyrir og fer með okkur úr einum ógöngunum (Forseti hringir.) í aðrar.