139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég kem hér upp í annað sinn til að ræða um þá tillögu til þingsályktunar sem fyrir liggur og ætla núna að líta á málið frá sjónarhorni þeirra 25 eða 520 sem buðu sig fram, en ég ætla að byrja á því að tala um drauminn um breytingu á stjórnarskrá.

Í óeirðunum sem brutust út um Alþingi 2008 og 2009 sem leiddu til breytingar á ríkisstjórn og nýrrar ríkisstjórnar var mikið rætt um orsakir hrunsins. Einhverjir snillingar komust að því eða töldu sig hafa komist að því að breyta þyrfti stjórnarskránni. Þessir snillingar hafa ekki getað sagt mér með nokkru móti hvað það er í stjórnarskránni sem olli þessu hruni, ekki einn einasti. Ég mun fara í gegnum ákvæði í stjórnarskránni sem eru þar og ég tel að þurfi að breyta og önnur sem ekki þarf að breyta.

Ákveðið var eftir mikið jaml, japl og fuður að efna til stjórnlagaþings og um það voru samþykkt lög. Náðist svona sæmileg samstaða um það þó að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu gjarnan viljað nota það stjórnlagaþing sem er til og heitir Alþingi Íslendinga, því að þingmenn eru hér í hlutverki stjórnlagagjafans samkvæmt núgildandi stjórnarskrá sem við höfum svarið eið að og geta í rauninni ekki skorast undan því hlutverki. Það sem gerðist við það að sett voru lög um að hér ætti að efna til stjórnlagaþings og það ætti að kjósa í almennri kosningu var að 520 manns buðu sig fram. Þeir öfluðu sér meðmælenda, sumir fóru út í kostnað við kynningu. Aðrir ekki neitt. Ég þekki dæmi þess að ekki var eytt krónu í kynningu. Kynningin var að mínu mati mjög fátækleg. Þegar ég lagði upp með það að fara að velja úr þessum 520 manns vissi ég í rauninni ekkert um hvaða stefnu þetta fólk hafði í sambandi við stjórnarskrá. Vildi það breyta einu atriði, 26. gr.? Vildi það breyta ákvæði um auðlindaákvæði? Hvað vildi þetta fólk yfirleitt? Ég vissi það ekki. Ég lagði í það vinnu og hafði ætlað í það fjóra tíma að velja frambjóðendur og þegar ég var búinn að fara í gegnum 100 var mér þannig háttað, frú forseti, með mitt heilabú að það byrjaði að sjóða á því, það réð bara ekki við allar þessar upplýsingar. Ég sat uppi með að þetta varð svona úllen dúllen doff-aðferð með síðustu 400. Þetta var ekki mjög skynsamleg kosning að mínu mati hvað mig varðar. Nú getur vel verið að aðrir kjósendur hafi átt auðvelt með að halda utan um 520 frambjóðendur og geta valið með mjög málefnalegum hætti þar á milli. Ég gat það ekki, það lá engin stefna fyrir og ekki neitt. En þarna voru sem sagt kosnir 25 frambjóðendur af þjóðinni, frú forseti.

Svo gerist það að allt kerfið í kringum þetta hrynur. Hæstiréttur setur út á a.m.k. sex atriði, ef ég man rétt, og segir að þessi atriði öll saman segi öllum lýð að þessar kosningar hafi verið ólýðræðislegar, sem var mjög mikið áfall fyrir t.d. mig sem er fulltrúi Alþingis í þingmannanefnd ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, sem sérhæfir sig í kosningaeftirliti. Ég hef farið í kosningaeftirlit, frú forseti. Það er mikil niðurlæging fyrir mig, komandi frá elsta lýðræðisríki heims, eins og kallað er á góðum stundum, og verandi allt í einu búinn að brjóta grundvallarreglur um kosningar, svo þetta sé nú nefnt.

Um leið duttu þeir 25 sem kosnir höfðu verið niður á það svið að vera valdalausir og umboðslausir líka, því að kosningarnar voru ógildar og þar með varð allt ógilt sem leiddi af þeim að mínu mati. Þá fóru menn að hugleiða hvað væri hægt að gera í stöðunni, hvernig hægt væri að bjarga þessari stöðu. Ekki vildu stjórnarliðar hverfa frá hugmyndinni um stjórnlagaþing — þó að það hefði sennilega verið gæfulegast og besti kosturinn að Alþingi áttaði sig á að það sjálft væri stjórnlagaþing — heldur var reynt að bjarga málum. Fjórar leiðir voru ræddar. Ein var reyndar alveg fráleit, þ.e. sú að fara að telja upp á nýtt, sem hefði sennilega ekki breytt neinu og alls ekki samrýmst úrskurði Hæstaréttar. Þá voru eftir þrjár leiðir. Ein var sú sem hér er lögð til og mér þótti verst, önnur var svokölluð uppkosning, það yrði bara kosið á milli þessara 520 manna aftur sem gæfi þá væntanlega allt aðra niðurstöðu, og þriðja var að byrja alveg frá byrjun og auglýsa eftir framboðum o.s.frv. og breyta reglum jafnvel þannig að kosningarnar yrðu ekki ólýðræðislegar. Það var sem sagt valin versta leiðin, sem við ræðum hér, af þessum þremur. Sú leið sem mér hefði þótt skynsamlegust, að Alþingi tæki þetta verkefni hreinlega yfir, sem var fimmta leiðin, var ekki til umræðu.

Frá sjónarhorni þessara 25 er búið að flytja þá úr því að vera þjóðkjörnir fulltrúar á þingi yfir í að vera ráðnir af forseta Íslands eða Alþingi til að gera nákvæmlega sama og átti að gera og Hæstiréttur sagði að væri ólöglegt. Þetta er dálítið skrýtið að það sé búin til staða eins og Hæstiréttur hafi ekki gert neitt, nema umboð þessara 25 fulltrúa er orðið miklu, miklu veikara. Nú eru þeir bara orðnir ráðgefandi og ég geri ráð fyrir að einhverjir þeirra muni ekki taka sæti, sérstaklega vegna þess að þeir buðu sig fram til að breyta stjórnarskránni. Í henni stendur þrískipting valdsins og ég hef ekki heyrt að menn ætli að hverfa frá því að hafa þrískiptingu valds sem franskir og aðrir heimspekingar í heiminum komu fram með í frönsku byltingunni og virða Hæstarétt.

Mér finnst menn hafa rætt mjög lítið um þá stjórnarskrá sem við höfum í dag. Á henni eru miklir agnúar og ég ætla að nota síðustu mínúturnar og það er kannski vel við hæfi, frú forseti, þar sem þetta er síðasta ræðan í málinu að fara að ræða efnislega um málið. Það stendur nefnilega í 11. gr., með leyfi frú forseta:

„Forseti lýðveldisins er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum.“

Hvað þýðir það eiginlega, að einhver maður sé ábyrgðarlaus? Það þýðir að hann ber ekki ábyrgð á neinu.

Svo stendur í 15. gr.:

„Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn.“ — Hann hefur heldur betur völd sá maður, ábyrgðarlaus eins og hann er.

Síðan stendur í 20. gr.:

„Forseti lýðveldisins veitir þau embætti, er lög mæla.“ — Hann á sem sagt að fara að veita embætti, maðurinn, þessi sem við kjósum sem forseta lýðveldisins.

Í 21. gr. stendur:

„Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki.“ — Það er aldeilis.

Og í 22. gr.:

„Forseti lýðveldisins stefnir saman Alþingi eigi síðar en tíu vikum eftir almennar alþingiskosningar.“ — Það er sem sagt hann sem stefnir saman Alþingi.

Svo í 24. gr. stendur:

„Forseti lýðveldisins getur rofið Alþingi, …“

Nú má vel vera, frú forseti, af því að tími minn er að renna út, að einhver borgari í landinu lesi þessar greinar og hann sér að þarna er ábyrgðarlaus maður sem hefur ógurlega mikil völd og furðar sig á því þangað til hann dettur niður á 13. gr. en þar stendur:

„Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt.“ — Hvað skyldi það þýða? Allt það vald sem stjórnarskráin gefur honum er tekið til baka með þessu. Það eru ráðherrar sem hafa völdin.

Menn hafa lítið tala um að það voru gerðar umtalsverðar breytingar á stjórnarskránni 1995. Ég ætla að fara í gegnum nokkrar þeirra svo menn átti sig á hvað stendur í stjórnarskránni, með leyfi frú forseta, stendur 71. gr.:

„Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.“ — Ætla menn að fara að afnema þetta? Ég trúi því ekki.

Síðan stendur í 72. gr.:

„Eignarrétturinn er friðhelgur.“ — Það getur vel verið að einhver vilji afnema þetta en ekki ég. Ég hugsa að meiri hlutinn sé ekki á því í landinu.

Í 73. gr.:

„Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.“ — Ég trúi ekki að nokkur einasti maður á Íslandi vilji afnema þetta.

Síðan í 74. gr.:

„Engan má skylda til aðildar að félagi.“

Og í 75. gr.:

„Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa.“ — Ætla menn virkilega að fara að afnema þetta? Ég held ekki.

Það er nefnilega þannig að sú stjórnarskrá sem við höfum svarið eið að er á margan hátt ágæt en hún er með þessum göllum varðandi forsetann, sem ég tel að þurfi að breyta, og svo vantar inn í hana eitt ákvæði, það vantar inn í hana allt um Hæstarétt. Ég er því mjög mikið á móti þeim breytingum sem menn eru að gera hérna og skora á Alþingi að gera slíkar breytingar sjálft.