139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

Hagþjónusta landbúnaðarins o.fl.

572. mál
[18:27]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina á þessu máli. Ég tek hins vegar eftir því í greinargerð með frumvarpinu, sem hæstv. ráðherra fór vel yfir í ræðu sinni, að vinnuhópurinn telur tæplega þann kost vera í stöðunni að halda áfram óbreyttu fyrirkomulagi rekstursins eins og hann er núna og telur líklegt að ráðuneytið muni ekki gera áframhaldandi samning um færslu lögbýlaskrár og telur margt upp til viðbótar. Það sem ég tek líka eftir í umsögn um frumvarpið er að þar kemur fram að um 24,8 millj. kr. fjárveiting fer til Hagþjónustu landbúnaðarins. Síðan kemur fram að hugsanlegur kostnaður vegna biðlauna og annars gæti numið um 13 millj. kr. sem er um það bil helmingur af þeim tekjum eða fjárveitingum sem viðkomandi stofnun hefur nú.

Mig langar því að beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort hann telji einhverja hættu á því að það dragi úr þjónustunni, hagþjónustu bænda, með samþykkt frumvarpsins og hvort það geti orðið mikill niðurskurður þó svo að ráðuneytið geti gert samninga og hvort hæstv. ráðherra hafi áhyggjur af því fyrirkomulagi að sitja uppi með það að um helmingur af fjárveitingum til viðkomandi stofnunar fari í að greiða biðlaunarétt til starfsmanna sem þar eru. Telur hæstv. ráðherra einhverja hættu á því að sú staða geti komið upp að hagþjónusta við bændur skerðist vegna þessa?