139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

Hagþjónusta landbúnaðarins o.fl.

572. mál
[18:30]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég greindi frá er ekki gert ráð fyrir því að starfsemin verði í sjálfu sér felld niður og alls ekki. Reyndar hafa ýmis atriði og verkefni sem eru tilgreind í núverandi lögum um Hagþjónustu landbúnaðarins nú þegar verið færð annað eða felld niður eins og búreikningahald og umsjón með því o.s.frv. Markmiðið er að styrkja þá grunnstarfsemi sem þarna hefur verið unnin og jafnframt að treysta enn betur böndin við Landbúnaðarháskólann og styrkja og efla með enn skilvirkari hætti starfsemi á vegum skólans með kennslu í landbúnaðarhagfræði og hagrannsóknum og öðrum slíkum verkefnum sem ég tel að þurfi að auka.

Varðandi fjárhagshliðina er greint frá því hvað breytingin geti kostað. Það er fórnarkostnaðurinn við þessar breytingar. Gert verður ráð fyrir því að hann komi til viðbótar á fjárlögum og starfsemi stofnunarinnar eða þau verkefni sem hún vinnur skerðist ekki.

Ég ítreka að meginmarkmiðið með þessu frumvarpi er annars vegar að standa vörð um þau grunnverkefni sem Hagþjónusta landbúnaðarins hefur unnið og vinnur og hins vegar að styrkja enn og efla kennslu, hagfræðirannsóknir og hagrannsóknir á sviði landbúnaðar á vegum Landbúnaðarháskólans. Við erum nú þegar með stóran rannsóknarsamning (Forseti hringir.) við Landbúnaðarháskólann.