139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

Hagþjónusta landbúnaðarins o.fl.

572. mál
[18:32]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Hæstv. ráðherra sagði réttilega, eins og kemur fram í fylgiskjali með frumvarpinu, að gert væri ráð fyrir því að 13 millj. kr. fjárveiting kæmi á móti fórnarkostnaðinum við breytinguna. Ég vil samt segja til að það komi skýrt fram að ég hef áhyggjur af því að ekki sé tilgreint í fylgiskjalinu með frumvarpinu að fjárveiting komi í verkefnið. Það er ekki sjálfgefið og ég þykist vita að fjárlögin í haust verði mjög erfið. Einmitt þá hefði ég talið betra að hafa það þannig að það kæmi skýrt fram, eins og kemur til að mynda fram í öðrum frumvörpum eins og um sameiningu landlæknis og Lýðheilsustöðvar, sem kemur fyrst upp í huga mér, þar sem er vitnað til þess kostnaðar sem hljótist af sameiningunni og er í því tilfelli 30 millj. kr. Þar er skilgreint hvernig farið er að og að það muni ekki bitna á rekstri stofnananna. Ég hefði frekar viljað hafa þetta skýrara til að tryggja fjárveitinguna.

Ég tek hins vegar undir það og fagna því sem hæstv. ráðherra segir um að það sé náttúrlega gert ráð fyrir því að Landbúnaðarháskólinn taki við verkefnum stofnunarinnar að mestu leyti. Það er mikið fagnaðarefni því að það mun styrkja þann góða skóla í þeim verkum sem hann vinnur. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á og stendur hér mundi það t.d. styrkja skólann á sviði landbúnaðar, hagfræði og meira.

Fyrst og fremst hef ég áhyggjur af því og hefði viljað hafa það skýrara að þessar 13 millj. kr. sem eru fórnarkostnaðurinn við að fara í þessa breytingu yrðu betur tryggðar en gert er.

Ég fagna því að breytingin muni styðja og styrkja uppbyggingu þess mikilvæga starfs sem fer fram á Hvanneyri.