139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

ávana- og fíkniefni og lyfjalög.

573. mál
[18:36]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni og lyfjalögum.

Með frumvarpinu er lagt til að veiting leyfa og undanþágna samkvæmt ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni verði flutt frá velferðarráðuneyti til Lyfjastofnunar. Einnig er lagt til að greiða skuli gjald fyrir slík leyfi og undanþágur.

Markmið frumvarpsins er hagræðing í rekstri ráðuneytisins og samræming, m.a. með hliðsjón af sameiningu heilbrigðisráðuneytis og félags- og tryggingamálaráðuneytis í eitt ráðuneyti. Þá verður að telja að viðkomandi stjórnsýsluframkvæmd eigi frekar heima á verksviði undirstofnunar, þ.e. Lyfjastofnunar, en ráðuneytisins. Í lyfjalögum er nú þegar kveðið á um sértækt eftirlit Lyfjastofnunar með ávana- og fíknilyfjum og því eðlilegt að veiting leyfa og undanþágna samkvæmt ávana- og fíkniefnalögum verði í höndum sömu stofnunar. Við undirbúning frumvarpsins var haft samráð við Lyfjastofnun. Undanþágur frá ávana- og fíkniefnalögum hafa verið veittar lyfsölum, lyfjaframleiðendum og lyfjaheildsölum. Lögregla og rannsóknastofnanir nota t.d. lítið eitt af ávana- og fíkniefnum sem samanburðarefni við ólöglega innflutt ávana- og fíkniefni, en efnin eru flutt inn af þeim sem til þess hafa leyfi eða lyfjaheildsölum.

Samfara tilfærslu verkefnisins frá ráðuneytinu til Lyfjastofnunar er lagt til að gjaldtökuheimild fyrir umrædd leyfi og undanþágur verði sett í lyfjalög og skal gjaldið taka mið af kostnaði stofnunarinnar. Ráðuneytið hefur ekki tekið gjald fyrir leyfi og undanþágur vegna ávana- og fíkniefna en telja verður eðlilegt og í samræmi við erlenda framkvæmd að greitt sé fyrir slíkt leyfi.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins. Ég legg áherslu á að þetta frumvarp felur ekki í sér efnislega breytingu. Hér er einungis lagt til að framkvæmd tiltekins verkefnis, þ.e. veiting undanþágna og leyfa vegna ávana- og fíkniefna sem verið hefur í höndum ráðuneytisins, verði færð til Lyfjastofnunar og að stofnuninni verði heimilt að innheimta gjald til að standa undir kostnaði.

Ég leyfi mér því að leggja til, hæstv. forseti, að frumvarpinu verði að lokinni umræðu vísað til hæstv. heilbrigðisnefndar og til 2. umr.