139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

heilbrigðisstarfsmenn.

575. mál
[18:39]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um heilbrigðisstarfsmenn. Frumvarp sama efnis var lagt fram á 137. og 138. löggjafarþingi en hlaut þá ekki afgreiðslu. Frumvarp það sem lagt var fram á síðasta þingi hefur nú verið endurskoðað og gerðar á því nokkrar breytingar, m.a. með tilliti til umsagna sem bárust hv. heilbrigðisnefnd Alþingis.

Megintilgangurinn með rammalöggjöf um réttindi og skyldur heilbrigðisstarfsmanna er að samræma og einfalda gildandi ákvæði um heilbrigðisstarfsmenn og tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga með því að skilgreina kröfur til heilbrigðisstarfsmanna. Ákvæði um heilbrigðisstarfsmenn eru gerð markvissari og hnitmiðaðri en áður. Felldar eru brott ónauðsynlegar takmarkanir á starfssviði heilbrigðisstétta og ákvæðin færð til nútímahorfs þannig að heilbrigðisþjónustan og störf og starfssvið heilbrigðisstétta geti þróast með eðlilegum hætti innan rammalöggjafar.

Gert er ráð fyrir að ráðherra setji reglugerðir um ýmis atriði sem eru þess eðlis að betur fer á að þau séu ákveðin í stjórnvaldsfyrirmælum. Þar má m.a. nefna kröfur um nám og eftir atvikum starfsþjálfun sem umsækjendur um starfsleyfi þurfa að uppfylla. Jafnframt verði kveðið á um starfssvið þeirra með reglugerð.

Það frumvarp sem við ræðum hér byggist að stofni til á ákvæðum læknalaga, nr. 53/1988, enda er tilvísun til læknalaga í flestum lögum og reglugerðum um heilbrigðisstéttir. Ýmis ákvæði læknalaga gilda því almennt um heilbrigðisstarfsmenn og má því segja að þau séu að vissu marki grundvallarlög um heilbrigðisstéttir.

Einnig má vísa til setningar laga um landlækni, nr. 41/2007, en með þeim var stigið skref í átt til samræmingar ákvæða um eftirlit landlæknis með heilbrigðisstarfsmönnum með því að taka upp í þau lög, þ.e. lög um landlækni, ákvæði um veitingu áminninga, sviptingu starfsleyfis og endurveitingu starfsleyfis heilbrigðisstarfsmanna.

Löggiltar heilbrigðisstéttir eru nú 33 og sérlög gilda um 14 heilbrigðisstéttir, en 19 stéttir hafa verið löggiltar með reglugerðum með stoð í lögum nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta.

Frumvarp um rammalöggjöf um heilbrigðisstarfsmenn hefur nú verið lengi í smíðum í heilbrigðisráðuneytinu og hefur ráðuneytið þrisvar sinnum sent drög að frumvarpi til umsagnar, síðast í desember 2008 en þá voru drög að frumvarpi m.a. send til fagfélaga heilbrigðisstétta, Lyfjastofnunar, landlæknisembættisins, menntastofnana og heilbrigðisstofnana og bárust alls 25 umsagnir. Þá sendi heilbrigðisnefnd Alþingis frumvörp þau sem lögð voru fram á 137. og 138. þingi einnig til umsagnar.

Við undirbúning frumvarpsins hefur verið höfð hliðsjón af norskum lögum um heilbrigðisstéttir frá árinu 1999 en þau lög taka til allra heilbrigðisstétta, þar á meðal lækna og hjúkrunarfræðinga.

Gildandi laga- og reglugerðaákvæði um heilbrigðisstéttir eru að ýmsu leyti úrelt og gætir þar talsverðs ósamræmis, t.d. varðandi það hvaða heilbrigðisstéttir geta starfað sjálfstætt og hverjar starfa á ábyrgð annarrar heilbrigðisstéttar, hvaða heilbrigðisstéttir mega hafa aðstoðarmenn og hverjar ekki og hvaða heilbrigðisstéttir þurfa að halda skýrslur um störf sín og hverjar ekki.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherra geti með reglugerðum kveðið nánar á um ýmis atriði sem eru þess eðlis að betur fer á að þau séu ákveðin í stjórnvaldsfyrirmælum eins og áður sagði heldur en í lögum. Má þar m.a. nefna kröfur um nám og eftir atvikum starfsþjálfun, ákvæði um afmörkun starfssviðs og fleira.

Við undirbúning slíkra reglugerða er gert ráð fyrir að hafa verði samráð við landlækni, fagfélög, menntastofnanir og eftir atvikum aðra sem málið kann að varða.

Hæstv. forseti. Meðal helstu breytinga og nýmæla sem felast í frumvarpinu sem nú er lagt fram er eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er hér um að ræða eina samræmda rammalöggjöf um heilbrigðisstarfsmenn sem koma skal í stað 14 sérlaga og laga um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta.

Í öðru lagi að starfssvið heilbrigðisstétta verði ákveðið á grundvelli þekkingar og hæfni með tilliti til hagsmuna sjúklinga og úreld ákvæði um takmarkanir á starfsréttindum verði felld brott.

Í þriðja lagi er kveðið á um í frumvarpinu að heilbrigðisstarfsmaður skuli virða faglegar takmarkanir sínar og vísa sjúklingi til annars heilbrigðisstarfsmanns þegar við á.

Í fjórða lagi er það undirstrikað í frumvarpinu að óheimilt sé að starfa undir áhrifum áfengis eða vímuefna og heilbrigðisstofnunum heimilað að setja reglur um bann við notkun áfengis og vímuefna í tiltekinn tíma áður en vinna hefst.

Í fimmta lagi er kveðið á um að heilbrigðisstarfsmenn skuli sjá til þess að aðstoðarmaður þeirra hafi næga hæfni og þekkingu og fái nauðsynlegar leiðbeiningar til að sinna störfum sem þeir fela þeim.

Í sjötta lagi er kveðið er á um að heilbrigðisstarfsmenn skuli gæta þess að sjúklingar, sjúkratryggingar eða aðrir verði ekki fyrir óþarfa útgjöldum eða óþægindum.

Í sjöunda lagi er í 24. gr. frumvarpsins fjallað um kynningu á heilbrigðisþjónustu. Þar segir að við kynningu og auglýsingar skuli ávallt gætt málefnalegra sjónarmiða, fyllstu ábyrgðar, nákvæmni og sanngirni. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji nánari ákvæði með reglugerð um kynningu og auglýsingar heilbrigðisþjónustu. Þetta er nýmæli sem felur í sér rýmkun frá gildandi ákvæði læknalaga sem gildir um flestar aðrar heilbrigðisstéttir samkvæmt vísunum til þeirra laga.

Í áttunda lagi er lagt til að ákvæði um hámarksaldur þeirra sem heimilt er að reka eigin starfsstofu verði lækkaður úr 75 í 70 ár en landlækni verði heimilt að framlengja leyfið um tvö ár í senn, þó ekki lengur en til 76 ára aldurs.

Í níunda lagi er ráðherra heimilað að ákveða með reglugerð að tilgreindri meðferð sé aðeins beitt af heilbrigðisstarfsmönnum, nánar tilgreindum heilbrigðisstéttum eða þeim sem fengið hafa til þess sérstakt leyfi landlæknis. Slíkar reglugerðir skulu settar að fenginni tillögu landlæknis og umsögn viðkomandi fagfélags.

Í tíunda lagi eru reglur um skilyrði fyrir veitingu starfsleyfa til erlendra umsækjenda frá ríkjum utan EES-svæðisins gerðar skýrari.

Í ellefta lagi ná ákvæði um útgáfu tímabundinna starfsleyfa til umsækjenda innan og utan EES-svæðisins og til læknanema að loknum hluta námstíma.

Að lokum, hæstv. forseti, er tannsmiðum bætt við sem heilbrigðisstétt.

Þá ber að geta nokkurra efnisbreytinga frá því frumvarpi sem lagt var fram á 138. löggjafarþingi. Helsta breytingin er sú að fallið er frá þeirri hugmynd að nýjar heilbrigðisstéttir verði einungis löggiltar með lagabreytingum og því fyrirkomulagi viðhaldið að ráðherra geti ákveðið með reglugerð að fella heilbrigðisstétt undir lögin. Jafnframt eru skilgreind tiltekin viðmið við mat á löggildingu nýrra heilbrigðisstétta og nýrra sérgreina.

Þá hefur heimild til gjaldtöku verið bætt við frumvarpið og á hún við í þeim tilvikum þegar umsækjandi hefur lokið námi frá ríki sem Ísland hefur ekki samið við um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi. Gjaldinu er ætlað að standa undir kostnaði sem hlýst af þýðingu og yfirferð gagna og annarri umsýslu mats- og umsagnaraðila. Gert er ráð fyrir að sett verði gjaldskrá að fenginni tillögu landlæknis vegna þessa.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins og helstu breytingum frá núgildandi ákvæðum þeirra 14 sérlaga sem gilda um heilbrigðisstéttir. Ég legg áherslu á að þetta frumvarp felur ekki í sér verulegar efnisbreytingar heldur er fyrst og fremst um að ræða nauðsynlega samræmingu og einföldun þessa flókna og að mörgu leyti úrelta regluverks sem nú gildir um heilbrigðisstéttir. Frumvarpið hefur eins og fram hefur komið verið nokkuð lengi í vinnslu og það er tímabært að mati þeirra sem best þekkja að ráðist verði í fyrrgreindar endurbætur á löggjöf um heilbrigðisstarfsmenn.

Ég leyfi mér því að leggja til, hæstv. forseti, að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. heilbrigðisnefndar og 2. umr.