139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

jafnréttismál.

[10:34]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hélt satt að segja að hér væri búið að skipuleggja rúmlega klukkustundarlanga umræðu um þetta mál þannig að við gætum eytt þessum tíma í eitthvað annað. Nóg er yfirleitt að spyrja ráðherrana um, en ég skal svara þessari fyrirspurn.

Ég tel engin efni til að segja af mér, enda tel ég að fyllilega faglega hafi verið staðið að þessari ráðningu í alla staði, eins og fram hefur komið. Ég gerði sem ráðherra mitt besta til að faglega yrði unnið að málinu. (Gripið fram í: Það var ekki nóg.) Kærandi var metinn fimmti hæfastur umsækjenda en sá sem var ráðinn metinn hæfastur. Ég spyr: Hvað hefðu menn sagt ef forsætisráðherra hefði skipað flokkssystur sína í þetta embætti sem var fimmta í röðinni í hæfnismati sérfróðra aðila sem fóru yfir þetta? Sá sérfróði aðili sem við lögðum mest upp úr er sérfræðingur sem hefur unnið mikið í mannauðsmálum og ráðningarmálum, bæði innan lands og erlendis.

Það hefði vel komið til greina að ég segði af mér sem ráðherra ef ég hefði ráðið pólitískt í þessa stöðu sem, eins og hv. þingmaður veit, sjálfstæðismenn hafa staðið fyrir. Það gerði hæstv. fyrrverandi dómsmálaráðherra þegar hann réð til starfa mann sem Hæstiréttur hafði metið umtalsvert minna hæfan en þann sem var ráðinn. Þá kaus ráðherra að hafa það mat að engu og skipa pólitískt í stöðuna þann sem lakasta matið fékk af þeim sjö sem voru metnir. Ekkert slíkt er til staðar í þessu máli. Þvert á móti voru niðurstöðurnar faglegar. Það er það sem skiptir máli í þessu öllu saman þannig að þar er afar ólíku saman að jafna.