139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

umsóknir um styrki frá ESB.

[10:46]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég sé að 13. liður á dagskrá í dag er þingsályktunartillaga um afturköllun umsóknar Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Ég sakna þess mjög að þingsályktunartillaga mín og fleiri um þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi aðildarviðræðunum áfram eður ei sé ekki líka á dagskrá vegna þess að formaður utanríkismálanefndar var búinn að tala um að þessar tillögur kæmu samhliða inn í þingið til að hægt væri að ræða þær. En það er önnur saga.

Ég var á umhverfisnefndarfundi og mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra um styrkjamál Íslands sem umsóknarríkis í aðlögunarferli. Það vill þannig til að margar stofnanir sem heyra undir umhverfisráðuneytið virðast vera komnar af stað með einhvers konar umsóknir eða beiðnir um styrki, en illa gengur að fá svör hjá forstjórum þessara ríkisstofnana um hverjir standi að baki þessum umsóknum. Forstjórarnir fara gjarnan hjá sér og geta ekki sagt þingmönnum hverjir það eru og hvernig styrkumsóknirnar koma til.

Því langar mig til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra beint: Hver stendur að þessum umsóknum með sérfræðiaðstoð sem koma á hingað í gegnum TAIEX-styrkina eða IPA-styrkina sem koma í beinum fjárframlögum? Er það ríkisstjórnin? Eru það einstakir ráðherrar? Er það samninganefndin sjálf? Eða embættismennirnir í stofnunum? Hverjir fara raunverulega fyrir þessum styrkumsóknum?