139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

umsóknir um styrki frá ESB.

[10:51]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ansi var þetta ruglingslegt svar. Að sjálfsögðu er ekki hægt að sækja um styrki ef skilyrði styrkveitingarinnar er jáyrði þjóðarinnar við því að ganga inn þannig að hæstv. utanríkisráðherra gat sparað sér þau orð. Það sem stendur upp úr í þessu svari er sú staðreynd sem kom fram í hinu litla svari ráðherrans um TAIEX-styrkina að það er samninganefndin sjálf sem skipuleggur og undirbýr styrkumsóknir. Þarna er samninganefndin komin langt fram fyrir umboð sitt sem samninganefnd því að hún á að gæta að hagsmunum Íslendinga fyrst og fremst en ekki sækja peninga til kvalara sinna í leiðinni. Þannig er það.

Þess vegna verðum við að athuga í þinginu, því að við höfum eftirlit með þessari umsókn sem nú liggur inni, hvort ekki sé um hreint valdbrot að ræða að samninganefndin fari fram með þessum hætti. (Forseti hringir.) Samninganefndin er komin langt út fyrir valdmörk sín miðað við það sem hún á að starfa.