139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

aðildarumsókn Íslands að ESB.

[11:01]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra þarf ekki að útskýra forsöguna, hún er alveg ljós og afstaða hæstv. ráðherra er kunn. Það vill þannig til að við hæstv. sjávarútvegsráðherra erum samherjar í Evrópusambandsmálum. En ég spurði hæstv. ráðherra hvort sú lýsing sem fram kom hjá hv. þm. Atla Gíslasyni á framgöngu utanríkisráðherra gagnvart sjávarútvegsráðherranum þar sem hæstv. utanríkisráðherra tók bersýnilega fram fyrir hendurnar á hæstv. sjávarútvegsráðherra og aftengdi í ESB-málinu sé rétt. Það er einföld spurning. Er sú atburðarás sem þar var lýst rétt? Ef svo er hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort hæstv. sjávarútvegsráðherra ætlar að sætta sig við að hæstv. utanríkisráðherra gangi fram með þeim hætti og hvort hann geti yfir höfuð setið í ríkisstjórninni sem hann situr í núna. Ef hann telur sig geta gert það og ef hann telur (Forseti hringir.) að lýsing hv. þm. Atla Gíslasonar sé rétt spyr ég hann aftur: Styður hann og ber hann traust til þess (Forseti hringir.) ráðherra sem gekk fram með þessum hætti gagnvart honum, með svo ómaklegum hætti, (Forseti hringir.) leyfi ég mér að segja?