139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

fundarstjórn.

[11:04]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að vekja máls á því og beina því til hæstv. forseta enn og aftur að full þörf er á því að ræða í þinginu um skýrslu þingmannanefndarinnar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þá þingsályktunartillögu sem alþingismenn samþykktu 63:0. Í skýrslunni kemur fram, með leyfi forseta:

„Svo virðist sem aðilar innan stjórnsýslunnar telji sig ekki þurfa að standa skil á ákvörðunum sínum og axla ábyrgð, eins og fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.“

Alþingi Íslendinga ályktaði að af skýrslunni skyldum við læra og miðað við þau orð sem féllu fyrr í dag af hálfu hæstv. forsætisráðherra er ljóst að menn hér í þinginu hafa ekkert lært, ætla sér ekki að læra neitt og ætla engu að breyta þrátt fyrir að hafa sjálfir leitt þá umræðu að því er mér skilst miðað við lærða pistla sem hæstv. forsætisráðherra ritaði þegar hún var almennur þingmaður.

Í skýrslu siðferðishópsins sem skilað var með skýrslu rannsóknarnefndar kemur jafnframt fram, með leyfi forseta: (Forseti hringir.)

„Leita þarf leiða til þess að styrkja siðferðisvitund stjórnmálamanna og auka virðingu þeirra fyrir (Forseti hringir.) góðum stjórnsiðum.“

Hæstv. forseti. Enn og aftur gerist full þörf á því að ræða það (Forseti hringir.) í þinginu.