139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[11:08]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég kem hér til að gera grein fyrir atkvæði mínu. Í kosningu til stjórnlagaþings gerðist það, því miður, að aðeins tveir voru kosnir af landsbyggðinni. Í þeim lögum var gert ráð fyrir að ef upp hefði komið kynjamisrétti hefði verið fjölgað um sex til að jafna það. Ég get tekið sem dæmi að hefðu 18 karlar náð kjöri og aðeins sjö konur af þessum 25 hefði sjálfkrafa verið bætt við sex konum til að uppfylla skilyrðin um 60%/40%-regluna. Þá hefðu fulltrúarnir orðið 31. Það var sem sagt gert ráð fyrir því.

En það var ekki gert ráð fyrir því í þeim lögum að jafna mismun milli landsbyggðarbúa og höfuðborgarbúa og þess vegna er það svo að aðeins tveir fulltrúar landsbyggðarinnar eru á þessu 25 manna stjórnlagaþingi. Það get ég ekki sætt mig við, virðulegi forseti, og þess vegna sit ég hjá.