139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[11:10]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Um leið og ég mótmæli fyrri hluta ræðu hæstv. innanríkisráðherra hlýt ég að taka eindregið undir síðari hlutann. Málið snýst einfaldlega um það að verið er að reyna að finna hjáleið fram hjá niðurstöðu Hæstaréttar, það er látið eins og Hæstiréttur hafi ekki komist að þeirri niðurstöðu sem hann gerði, að ógilda kosninguna. Hæstiréttur gerði það ekki að ástæðulausu, sameinaður Hæstiréttur komst að sameiginlegri niðurstöðu um að kosningin væri ógild vegna galla sem á henni voru. Raunar hefur verið bent á fleiri galla síðar en um það náum við ekki að fjalla hér þó að það sé efni í frekari umræðu síðar. En með því að samþykkja þessa tillögu væri Alþingi ótvírætt að fara á svig við niðurstöðu Hæstaréttar. Það eru ótæk vinnubrögð af hálfu Alþingis. Við það mun ég ekki sætta mig, (Forseti hringir.) og við sjálfstæðismenn munum greiða atkvæði gegn þessari tillögu.