139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[11:12]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég er hlynntur því að gerðar séu breytingar á stjórnarskránni en það má ekki gera með þeim hætti sem lagt er til í þessari tillögu vegna þess að með henni er lagt til að Alþingi fari á svig við niðurstöðu Hæstaréttar Íslands, æðsta dómstólsins, og hafi hana að engu. Lagt er til að sama fólkið vinni sama verkefnið á sömu kjörum og á sama stað og kosið var í kosningu sem dæmd var ógild. Með því er verið að hafa niðurstöðu Hæstaréttar að engu. Undir þau sjónarmið hafa allir þeir fræðimenn tekið sem fjallað hafa um málið, hvort sem það eru Sigurður Líndal, Ragnheiður Helgadóttir eða Róbert Spanó. Þau hafa sagt að við eigum að hlíta niðurstöðu Hæstaréttar, (Gripið fram í.) hver sem hún er. Það er ekki gert hér og undir það hefur hæstv. innanríkisráðherra tekið.

Ég spyr hv. þingmenn hvort þeir hafi velt fyrir sér (Forseti hringir.) hvaða fordæmi þeir setja með samþykkt þessarar tillögu. Hvernig ætlast þeir til þess að almenningur í landinu hlíti niðurstöðu Hæstaréttar í öðrum málum (Forseti hringir.) þegar þeir ætla sjálfir ekki að gera það hér?