139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[11:19]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þessa fyrstu mánuði ársins höfum við orðið vitni að eins konar landamæradeilum milli lykilstofnana stjórnskipunarinnar. Við höfum horft á forseta lýðveldisins ganga gegn vilja ríflega tveggja þriðju hluta þingheims og vega þar með að stöðu löggjafans. Við höfum séð Hæstarétt ógilda niðurstöðu almennrar kosningar til stjórnlagaþings á forsendum formsatriða og líta þannig fram hjá vilja rúmlega 80 þúsund kjósenda í landinu.

Í dag greiðum við atkvæði um viðbrögð Alþingis við úrskurði Hæstaréttar. Það er mín sannfæring að það sé skylda okkar í þinginu að virða úrskurði Hæstaréttar, jafnvel þó að við kunnum að vera ósammála þeim forsendum sem liggja til grundvallar ákvörðunum hans. Ég get því ekki stutt þá leið sem hér er lögð til en er eftir sem áður mjög fylgjandi því að sérstakir fulltrúar þjóðarinnar takist á hendur það verk að móta tillögur um endurskoðun á stjórnarskránni. Ég sé mig því knúinn til að sitja hjá við afgreiðslu þessa máls og greiði (Forseti hringir.) ekki atkvæði.