139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[11:21]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er mikilvægt að við komum því verki nú loksins eitthvað áfram að endurskoða stjórnarskrána. Það er líka mikilvægt að þjóðin eigi sem ríkastan hlut í því verkefni, þetta er stjórnarskrá fyrir íslensku þjóðina sem við erum að tala um.

Ég hef hvergi fundið neitt í lögum, stjórnskipun eða hefðum sem tekur réttinn af Alþingi Íslendinga til að skipa hóp valinkunnra einstaklinga sem sýnt hafa viðkomandi viðfangsefni áhuga í nefnd eða ráð og til verka. (Gripið fram í: Meiri hluti …) Ég tel mig hvorki vera að sniðganga lög né úrskurð Hæstaréttar og þaðan af síður að brjóta stjórnarskrána með því að styðja þessa tillögu. Ég tel að það sé skásti kosturinn í stöðu sem upp er komin þar sem enginn er vissulega góður. Mér þykja menn taka býsna djúpt í árinni þegar þeir fullyrða fyrirvaralaust að við sem ætlum að styðja þessa tillögu séum að brjóta stjórnarskrána. (Forseti hringir.) Það eru nokkuð þung orð.