139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[11:23]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Framsóknarflokkurinn ályktaði um að það ætti að breyta stjórnarskrá og það ætti að gera það með stjórnlagaþingi sem væri bindandi. Það reyndist ekki unnt vegna deilna á hinu háa Alþingi og úr því sem komið er er best að koma hlutum þannig fyrir að við göngum sem næst því að hafa bindandi stjórnlagaþing.

Og hvað er það, virðulegur forseti? Í stöðunni sem nú ríkir er skynsamlegast að segja já við þessari tillögu, að skipa stjórnlagaráð. Ég tel að löggjafinn hafi fullar heimildir til að leggja það til og leggja þannig grunn að nýrri stjórnarskrá. Auðvitað kom til greina að kjósa aftur. Hins vegar hefði það verið dýrt og ég óttast að fáir hefðu mætt til leiks í þeirri kosningu. (Gripið fram í: Af hverju?) Þetta er það skynsamlegasta í stöðunni og ég tel fráleitt að halda því fram að við séum að ganga gegn Hæstarétti og að við höfum ekki heimildir til þess að gera þetta, hvað þá (Forseti hringir.) að við séum að brjóta stjórnarskrá. Það er fráleit hugsun. Ég mun segja já í þessari atkvæðagreiðslu.