139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[11:27]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Sex hæstaréttardómarar komust að því að það bæri að ógilda kosninguna til stjórnlagaþings. Ég vek athygli á að sex hæstaréttardómarar geta ekki komist að niðurstöðu í dómsmáli, fjöldinn verður eðli málsins samkvæmt að vera oddatala, þrír, fimm eða sjö. Hér koma menn og hafa hátt um að það sé verið að vanvirða dómskerfið og (Gripið fram í.) þrískiptingu ríkisvaldsins. Ég vísa því öllu á bug og spyr: Hvað bar að gera í kjölfar ákvörðunar Hæstaréttar? Ég spurði hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins og fékk engin svör. Jú, það lá fyrir að Alþingi yrði að taka ákvörðun um áframhaldið og enginn sérfræðingur hefur lýst því yfir að sú ákvörðun sem er verið að taka hér í dag sé ólögleg á einhvern hátt. (Forseti hringir.) (Gripið fram í: Ætlar þú …?)

Við verðum núna að taka ákvörðun þó að hún sé erfið sem (Forseti hringir.) þingmönnum í 65 ár hefur ekki tekist að gera. (Forseti hringir.) Ég er stoltur af því að vera þátttakandi í því. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) [Háreysti í þingsal.] (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Hljóð í þingsal.)