139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[11:29]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta er búin að vera skrýtin umræða, þetta er eins og á fundi hjá einhverjum sértrúarsöfnuði. [Hlátur í þingsal.] Það er talað hérna um þrískiptingu ríkisvaldsins. Auðvitað er ríkisvaldið þrískipt en það skiptist ekki í þrjá fílabeinsturna heldur í þrjár lifandi stofnanir sem snerta hver aðra, sem bregðast við gerðum hver annarrar sem í sameiningu og lifandi samspili draga þann vagn sem eitt þjóðfélag er.

Auðvitað eru þetta viðbrögð við dómi Hæstaréttar, þetta er ekki sniðganga á honum heldur bara nauðsynleg og skynsamleg viðbrögð sem ég styð af öllu hjarta. Á sama hátt er ég algjörlega andsnúinn því lýðskrumi að ætla að leggja niðurstöðu stjórnlaganefndar í þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að samkvæmt stjórnarskrá okkar sem við skulum virða — við skulum virða hana enn þá meira en Hæstarétt, við skulum virða hana meira en allt (Forseti hringir.) annað sem við eigum — kemst þingið ekki hjá því að það er þingið sem verður að fjalla um þetta.