139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[11:41]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég hef áður lýst því að ég tel að tillagan sem slík sem liggur fyrir til umræðu sé ótæk vegna þess að verið sé að fara á svig við niðurstöðu Hæstaréttar. Efnislega get ég tekið undir margt í breytingartillögu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur. Ég tel reyndar að hún eigi fremur heima í umræðu sem hugsanlega muni eiga sér stað síðar í dag eða í næstu viku um breytingar á lögum um stjórnlagaþing. En afstaða mín til þessarar tillögu og ástæðan fyrir því að ég get ekki stutt hana er sú að við sjálfstæðismenn höfum flestir verið þeirrar skoðunar að um leið og við segjum nei við tillögunni sjálfri mundum við ekki styðja breytingartillögur jafnvel þó að þær hafi þann tilgang að lappa eitthvað upp á afurðina. En tillagan sjálf er í grunninn svo slæm (Forseti hringir.) að henni verður ekki við bjargað þótt reynt verði að laga hana með einhverjum hætti. Ég segi nei.