139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[11:45]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Breytingartillaga þessi hljóðar svo:

„Áður en umfjöllun Alþingis um frumvarp til stjórnarskipunarlaga hefst skal fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs.“

Í greinargerð með breytingartillögunni segir m.a.:

„Breytingartillaga þessi tryggir aðkomu þjóðarinnar að endanlegu frumvarpi stjórnlagaráðs og að vilji þjóðarinnar sé skýr hvað varðar nýja stjórnarskrá áður en kemur til kasta Alþingis.“

Frú forseti. Það er mikið vantraust á Alþingi og nánast öllum stofnunum ríkisvaldsins og því er mikilvægt að það Alþingi sem nú situr lýsi yfir með óyggjandi hætti að það óski eftir afstöðu almennings til nýrrar stjórnarskrár áður en Alþingi sjálft fær málið til meðferðar. Ef þjóðinni er ekki treystandi fyrir þessu máli og það á því stigi sem hér um ræðir, þá hvenær? Ég bara spyr.

Í dag hefur komið fram eðlislæg fyrirlitning formanns Sjálfstæðisflokksins á þjóðarvilja í landinu og það er kominn tími til að Alþingi breyti um kúrs og lýsi því yfir að þjóðin (Forseti hringir.) greiði atkvæði um mál en ekki eingöngu Sjálfstæðisflokkurinn.