139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[12:00]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er auðvitað rétt sem komið hefur fram í dag að stjórnarskrá Íslands olli ekki hruni fjármálakerfisins. Sú staða er hins vegar uppi í samfélaginu að það þarf að byggja upp traust og trúverðugleika, bæði stjórnvalda, löggjafar, og stjórnarskrárinnar. Þess vegna erum við að fara í þetta mikilvæga verkefni og þess vegna styð ég þá tillögu sem hér er fram komin.

Frú forseti. Ég vona heitt og innilega að allir þeir valinkunnu einstaklingar sem völdust í atkvæðagreiðslunni 27. nóvember sl. taki sæti í stjórnlagaráði og að þeirri góðu vinnu verði fram haldið síðar á þessu ári. Ég vona líka að hv. þingmenn standi þá við sín stóru orð um að klára þetta mál. Ég segi já.