139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[12:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hef verið einn af þeim sem hafa haft miklar efasemdir um að halda stjórnlagaþing. En ég er hins vegar ekki að skýla mér á bak við úrskurð Hæstaréttar þegar ég segi að ég sé á móti þeirri leið sem hér er verið að fara. Ég er einfaldlega á móti því að farið sé á svig við niðurstöðu Hæstaréttar, að ég tel. Auk þess finnst mér að kosningin sem fór fram hafi mistekist og að við séum á rangri leið.

Ég held að við þingmenn eigum ekki að vera í einhverri tilraunastarfsemi með stjórnarskrána. Þetta er verkefni sem ég vil taka þátt í að leysa. Ég vil taka þátt í að endurskoða stjórnarskrána. Ég lýsti því í gær, held ég hafi verið, hvaða þætti ég teldi að ætti að endurskoða. Ég samþykkti það hins vegar að fara í stjórnlagaþing í atkvæðagreiðslu vegna þess að ég taldi að þó svo ég væri á móti því væri það einlægur vilji meiri hluta þingsins að gera það og samkvæmt stefnuskrá Framsóknarflokksins. En þetta er ekki leið sem hægt er að samþykkja. Ég segi nei.