139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[12:13]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Í kjölfar hrunsins hélt Framsóknarflokkurinn eitthvert fjölmennasta flokksþing sem hann hefur haldið. Á því þingi kom fram eindreginn vilji flokksmanna til að breyta hinu pólitíska landslagi, fá nýja pólitíska hugsun. Þess vegna var samþykkt að flokkurinn skyldi fyrstur þingflokka leggja til að haldið yrði stjórnlagaþing. Við studdum það og settum það á oddinn þegar við vörðum minnihlutastjórnina en það náði ekki fram að ganga þá. Við vissum að það frumvarp sem varð að lögum um stjórnlagaþing væri með ýmsum ágöllum. Ég nefndi það hér að landsbyggðin mundi hugsanlega fara illa út úr þessu en engu að síður ákváðum við í sátt og samlyndi að fara þessa leið. (Forseti hringir.) Vissulega varð niðurstaða Hæstaréttar steinn í götuna en við stöndum frammi fyrir því vali (Forseti hringir.) í dag hvort við ætlum að halda áfram eða hætta við, það er mitt mat. (Forseti hringir.) Og ég segi já, frú forseti. Ég vil halda áfram með þetta verkefni. (Forseti hringir.)