139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[12:16]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Sú almenna regla gildir í þróuðum lýðræðisríkjum að reyna að vinna að stjórnarskrárbreytingum í sátt. Auðvitað hafa menn einhverjar skiptar skoðanir um það hvernig stjórnarskrá eigi að líta út en almenna reglan er sú að unnið sé í eins mikilli sátt og hægt er um slík mál, breiðri samstöðu þings og þjóðar.

Um þetta mál er engin sátt, virðulegi forseti, hvorki hér á þinginu né meðal þjóðarinnar. Það er grafalvarlegt mál að leggja af stað í þessa vegferð með slíkt veganesti. Hér er minni hluti þingmanna að keyra það í gegn að fara þá leið sem við ræðum hér um. Mjög takmarkaður hluti kjósenda í landinu tók þátt í þeirri kosningu sem við ræðum um. Þetta eru ekki vinnubrögð sem þingið á að bjóða þjóðinni upp á, vinnubrögð sem þessi stuðla að vanvirðingu gagnvart Alþingi Íslendinga. (Forseti hringir.) Í þessu kristallast sú staðreynd, virðulegi forseti, hve nauðsynlegt það er að við förum að leggja það tveggja ára (Forseti hringir.) ólgutímabil í dóm þjóðarinnar og boða hér til kosninga.

(Forseti (ÁRJ): Þingmaðurinn segir …)

Hann segir nei.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur þingmenn eindregið til að virða hér tímamörk og hætta ræðu sinni þegar forseti slær í bjölluna.)